Fréttaskýring: Litlar líkur á makrílsamningi

Aðalsteinn Jónsson SU og Huginn VE sigla spegilsléttan Eskifjörðinn. Bæði …
Aðalsteinn Jónsson SU og Huginn VE sigla spegilsléttan Eskifjörðinn. Bæði hafa þau verið afkastamikil á makrílveiðum og stór hluti afla þeirra er unninn um borð. mbl.is/Hafsteinn

Ekki liggur fyrir ákvörðun um hvenær næsti fundur í makríldeilunni verður haldinn en aðilar munu væntanlega verða í sambandi á næstu vikum. Innan Evrópusambandsins eru makrílveiðar ársins komnar í gang og með hverri vikunni minnka líkur á að samningar náist um stjórnun veiða á þessu ári.

„Það er ekki sérlega líklegt að samningar náist fyrir þetta ár úr því sem komið er, en það er þó ekkert útilokað,“ segir Tómas H. Heiðar, aðalsamningamaður Íslands í makrílviðræðunum. „Hins vegar er mun raunhæfara að í ár náist samningur fyrir 2012 og til framtíðar,“ segir Tómas.

Nýlega var haldinn í Ósló fundur strandríkjanna Íslands, ESB, Færeyja og Noregs, auk Rússlands, um stjórnun makrílveiða í Norðaustur-Atlantshafi. Á fundinum ítrekuðu Íslendingar að útgangspuntur þeirra í viðræðunum væri núverandi hlutdeild þeirra í veiðunum, en kvóti Íslands bæði í fyrra og í ár nemur 16-17% af samanlögðum einhliða kvótum aðilanna.

Jafnframt var því lýst yfir að Íslendingar væru tilbúnir að lækka þá hlutdeild gegn aðgangi til veiða í lögsögu hinna ríkjanna og sýna aukinn sveigjanleika í þeim efnum. Eins og staðan er núna veiða Íslendingar makríl eingöngu í eigin lögsögu, en með slíkum aðgangi yrðu áhrifin minni ef göngumynstur makríls breyttist aftur eftir einhver ár en búast má við því í ljósi sögunnar. Ekki náðist niðurstaða á fundinum í Ósló þrátt fyrir aukinn sveigjanleika Íslendinga.

Tómas H. Heiðar segir útspili Íslands hafa verið ætlað að koma hreyfingu á málið sem hefði verið í kyrrstöðu. Það hefði á vissan hátt tekist, enda hefðu hinir aðilarnir tekið frumkvæðinu vel og mun jákvæðara andrúmsloft hefði verið á fundinum í Ósló en á fyrri fundum.

Aðrir verða að leggja sitt af mörkum

„Hins vegar er alveg ljóst að við væntum þess að ESB og Noregur muni nú í framhaldinu stíga skref til móts við okkur og koma fram með raunhæft útspil til að minnka það bil sem enn er milli aðila,“ segir Tómas. Hann segir afar brýnt að ná samkomulagi um heildarstjórnun makrílveiðanna til að koma í veg fyrir ofveiði úr stofninum og tryggja sjálfbærar veiðar, enda séu það sameiginlegir hagsmunir allra. „Mikilvægt er þó að ESB og Noregur geri sér grein fyrir því að þeir eiga sem stærstu hluthafarnir mestra hagsmuna að gæta og við væntum þess að þessir aðilar muni nú leggja sitt af mörkum til að samkomulag náist,“ bætir Tómas við.

Hann segir í þessu sambandi rétt að horfa til nýlegs samkomulags um stjórnun veiða á úthafskarfa á Reykjaneshrygg. Þar hafi strandríkin Ísland og Grænland þurft að færa miklar fórnir í því skyni að reyna að bjarga stofninum og Ísland hafi t.d. þurft að sætta sig við skertan hlut, um 31%. ESB, sem sé ekki strandríki hvað úthafskarfann varðar, hafi hins vegar ekki verið reiðubúið til að taka á sig skerðingu og hafi fengið rúmlega 15% í sinn hlut sem byggt sé á sögulegri veiðireynslu.

„Í þessu ljósi er ekki óréttmætt af okkar hálfu að ætlast til þess að ESB leggi sérstaklega af mörkum til að samkomulag náist um stjórnun makrílveiða til að tryggja framtíð stofnsins,“ segir Tómas.

Eftir fundinn í Ósló tilkynnti Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, að makrílkvóti Færeyinga yrði 150 þúsund tonn í ár, en kvóti þeirra í fyrra nam 85 þúsundum tonna. Ekki er líklegt að sú ákvörðun auki líkur á heildarsamkomulagi. Fram kom er greint var frá ákvörðuninni að æreyingar teldu sig eiga réttmæta kröfu til umtalsverðs hluta af heildarafla á makríl og hefðu beðið með að ákveða kvóta þar til samningaleiðin hefði verið reynd til hins ýtrasta.

Færeyingar hafa jafnframt ákveðið að Rússar fái að veiða 25 þúsund tonn af makrílkvóta Færeyja í færeyskri lögsögu gegn þorskkvóta í Barentshafi. Færeyingar hafa enn ekki náð tvíhliða samningum við Norðmenn og ESB um veiðar á öðrum fisktegundum.

ESB krafðist þess í desember að Færeyingar gerðu þríhliða langtímasamkomulag við ESB og Noreg um makrílveiðar áður en samningur ESB og Færeyja um fiskveiðar á þessu ári yrði undirritaður. Færeyingar féllust ekki á það.

Skotar gagnrýna – Íslendingar vísa ábyrgð á ESB og Noreg

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að makrílkvóti Íslendinga í ár verði tæp 147 þúsund tonn. Makrílveiðum Íslendinga hefur verið mótmælt og hafa mótmælin verið mest í Skotlandi. Bertie Armstrong, framkvæmdastjóri skoska sjómannasambandsins, sagði nýlega að harma bæri að síðasti viðræðufundur um makríl í Ósló hefði engu skilað og ólíklegt væri að frekari viðræður yrðu um kvóta þessa árs.

„Framganga fyrst Íslendinga og nú Færeyinga í þessu máli er rót mjög alvarlegs vandamáls sem ógnar makrílstofninum og einnig mikilvægum tvíhliða samningum,“ sagði Armstrong.

Við ákvörðun á makrílkvóta ársins beindi Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra því til hinna strandríkjanna að taka tillit til hlutdeildar Íslands við kvótaákvarðanir sínar með það í huga að heildarveiðar færu ekki fram úr vísindalegri ráðgjöf. ESB og Norðmenn ákváðu hins vegar að makrílkvótar þeirra á þessu ári yrðu samtals 583.882 tonn eða rúmlega 90% af ráðlögðum heildarafla ICES. Skiptingin er þannig að 401 þúsund tonn koma í hlut ESB og 183 þúsund tonn í hlut Norðmanna.

Íslensk stjórnvöld hafa gagnrýnt þessa ákvörðun og sjávarútvegsráðherra benti á að kvótaákvörðun ESB og Noregs væri í raun ákvörðun um að heildarveiðar á makríl á næsta ári „fari fram úr ráðlögðum heildarafla og er fullri ábyrgð vegna þessa vísað á hendur þeim“.

Rússar munu hafa tilkynnt að þeir ætli sér um 5% af heildarveiðunum eða tæp 50 þúsund tonn.

Allir aðilar tefla á tvær hættur

„Það segir sig sjálft að með þeim veiðum á makríl, sem eru fyrirhugaðar í ár, eru allir aðilar að tefla á tvær hættur til lengri tíma litið,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, fiskifræðingur og sviðsstjóri nytjastofna hjá Hafrannsóknastofnun.

„Ef heildaraflinn fer langt fram úr ráðlögðum heildarafla verða áhrifin á þróun stofnsins á næstu árum skýr, eins og fram kemur í skýrslum Alþjóða hafrannsóknaráðsins, ICES. Hrygningarstofninn minnkar og veiðistofninn þar af leiðandi líka. Þegar hrygningarstofninn minnkar eru auknar líkur á að nýliðun verði lakari.

Það eru ekki bara líkur á verri nýliðun heldur gæti göngumynstrið líka riðlast ef stofninn minnkar mikið. Það er þekkt hjá fiskistofnum að því minni sem fiskistofnar eru þeim mun styttra fara þeir í ætisgöngur til að ná í þá fæðu sem þeir þurfa.

Skýrt dæmi um þetta er norsk-íslenski síldarstofninn sem hélt sig í norskri lögsögu í meira en tvo áratugi eftir hrun stofnsins fyrir 1960 og fór ekki að ganga út úr henni fyrr en stofninn hafði stækkað verulega. Með þeirri þróun sem hefur verið í veiðum á makríl er auðvitað ákveðin hætta á því að hann dragi úr göngum inn á okkar hafsvæði líkt og hann hefur gert á síðustu árum,“ segir Þorsteinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK