Fréttaskýring: Hagvaxtarhorfur versnuðu til muna á örfáum mánuðum

Efnahagslægð og ágjöf er enn í spákortum Seðlabankans en samt …
Efnahagslægð og ágjöf er enn í spákortum Seðlabankans en samt sem áður sér peningastefnunefnd ekki ástæðu til þess að lækka vexti. mbl.is/Golli

Helstu tíðindin í nýjustu þjóðhagsspá Seðlabankans, sem birtist í Peningamálum, eru versnandi hagvaxtarhorfur að mati sérfræðinga bankans.

Í febrúar spáði Seðlabankinn að hagvöxtur á þessu ári myndi verða 2,8% en nú, tveim mánuðum síðar, hefur bankinn lækkað spána niður í 2,3%. Ennfremur er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði minni en spáð var í febrúar á næstu tveim árum: Í stað 3,2% hagvaxtar á næsta ári spáir bankinn nú 2,9% en niðurfærslan fyrir árið 2013 er enn meiri, en nú er spáð 2,7% vexti í stað 3,4%.

Hér er því um verulega breytingu að ræða frá síðustu þjóðhagsspá og það sem undirstrikar hana er ekki síst sú staðreynd að nú er gert ráð fyrir að framleiðslugeta þjóðarbúsins verði ekki fullnýtt fyrr en í fyrsta lagi um mitt ár 2014 eða einu ári síðar en gert var ráð fyrir í febrúarspánni.

Einkaneyslan dregur vagninn í átt að innflutningi

Ástæðan fyrir versnandi hagvaxtarhorfum er tvíþættur. Í fyrsta lagi beinist vöxtur innlendrar eftirspurnar að innflutningi í meiri mæli en áður var gert ráð fyrir. Eins og í fyrri spám er gert ráð fyrir að innlend eftirspurn verði helsti drifkraftur hagvaxtar á næstu árum, en framlag utanríkisviðskipta verði neikvætt. Sérfræðingar bankans gera ráð fyrir áframhaldandi vexti einkaneyslu í krafti minni sparnaðar heimilanna auk þess að þau nýti sér endurgreiðslur á ofteknum afborgunum gengistryggðra lána í neyslu. Einnig gerir Seðlabankinn ráð fyrir að hækkun eignaverðs og lækkun vaxta muni styðja við einkaneysluna.Seðlabankinn spáir minni hagvexti þó svo að gert sé ráð fyrir „kröftugri fjárfestingu“ í álframleiðslu og tengdum iðnaði en í febrúarspá bankans.

Í öðru lagi rekur Seðlabankinn versnandi hagvaxtarhorfur til þess að bakslagið eftir viðsnúninginn kom fyrr en sérfræðingar bankans höfðu búist við. Fram kemur í Peningamálum að sérfræðingar bankans standa við það mat að landsframleiðslan hafi byrjað að aukast um mitt ár í fyrra. Hinsvegar segir í skýrslunni að bakslagið sem búist hafði verið við á fyrri hluta þessa árs hafi komið fyrr – eða strax á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Fyrri spá hafði gert ráð fyrir að ofangreint bakslag myndi koma á fyrri helmingi þessa árs.

Þrátt fyrir versnandi hagvaxtarhorfur sá peningastefnunefnd bankans ekki ástæðu til þess að lækka stýrivexti á síðasta fundi sínum. Vextir á viðskiptareikningum innlánastofnana verða áfram 3,25% og veðlánavextir bankans 4,25%.

Meiri áhyggjur af verðbólgu en skorti á hagvexti

Óbreyttir vextir eru meðal annars rökstuddir í yfirlýsingu nefndarinnar með vísun til versnandi verðbólguhorfa, en þjóðhagsspá Seðlabankans gerir ráð fyrir að verðbólgan fari í 3% síðar á þessu ári og haldist á því róli fram til næsta árs. Verðbólguþrýstingurinn skýrist af hækkun á heimsmarkaðsverði á hrávöru sem og lægra gengi krónunnar. Sérstaklega er tekið fram í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave hafi aukið hættuna á frekari veikingu krónunnar og geti takmarkað svigrúm peningastefnunefndarinnar til aðgerða ef hún leiðir til verri lánakjara íslenska ríkisins á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þrátt fyrir þetta kemur fram í grunnspá Seðlabankans að gert sé ráð fyrir að verðbólga verði komin nálægt markmiðum bankans um mitt næsta ár.

Vaxtahækkun ekki útilokuð

Í ljósi þeirrar spár hljóta ýmis rök að teljast hníga að frekari lækkun vaxta Seðlabankans á næstu misserum, ekki síst þegar haft er í huga að kjarnaverðbólga – það er verðbólga án tillits til skattahækkana og hækkunar á verði innflutnings – mælist nú aðeins um 1,3% á ársgrundvelli. Hinsvegar verður ekki séð af yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar að slík lækkun sé líkleg. Fram kemur í yfirlýsingunni að óvissa sé um í hvaða átt næstu vaxtabreytingar verða. Nefndin segist reiðubúin til þess að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt sé til þess, meðal annars, að tryggja gengisstöðugleika. Þessi vísun í gengisstöðugleikann vekur sérstaka athygli í ljósi þess að búið er að samþykkja að hrinda fyrsta áfanganum í afnámi gjaldeyrishafta í framkvæmd með útboðum á gjaldeyri fyrir aflandskrónur. Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu fyrir nokkru felur sú áætlun í sér að peningastefnunefndin þurfi ekki lengur að hafa áhyggjur af áhrifum vaxtaákvarðana á stöðu þeirra sem eru fastir með aflandskrónur á Íslandi. Sem kunnugt er þá eru raunvextir hér á landi í hæstu hæðum meðan þeir eru almennt neikvæðir í öðrum þróuðum hagkerfum. Hátt raunvaxtastig hefur meðal annars verið réttlætt með vísan til þess vanda sem steðjar að hagkerfinu vegna aflandskróna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK