Ítrekað byggt á röngu mati

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar varðandi SpKef hafa ítrekað byggst á röngu mati eigna sparisjóðsins og fari fram sem horfir stefnir í hrikalegan skell fyrir íslenska skattgreiðendur, að sögn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Skrifar hann aðsenda grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fer yfir aðkomu ríkisins að sparisjóðnum frá upphafi.

Segir Bjarni að í apríl 2010 hafi þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, sagst ekki eiga von á því að aðstoð ríkisins við endurreisn SpKef myndi kosta ríkið neitt. Þegar ákveðið hafi verið að sameina SpKef og Landsbanka hafi kostnaðurinn hins vegar verið kominn í rúma ellefu milljarða og nú sé útlit fyrir að um 30 milljarðar lendi á ríkinu vegna ofmats eigna sjóðsins.

Grein Bjarna í heild sinni:

Ítrekað vanmat og blekkingar vegna SpKef
Eftir Bjarna Benediktsson

Fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, virðist vera í algerri afneitun vegna málefna SpKef og mögulegs kostnaðar ríkisins í tengslum við að tryggja innistæður sparisjóðsins. Nú er orðið ljóst að aðgerðir stjórnvalda síðastliðin tvö ár hafa byggst á alvarlegu ofmati á virði yfirtekinna eigna.

„Kostar ekkert“

Í apríl 2010 skilaði sparisjóðurinn inn starfsleyfi sínu og SpKef var komið á fót með um 860 milljóna framlagi frá íslenska ríkinu.

Við það tækifæri sagði Gylfi Magnússon, þáverandi efnahagsog viðskiptaráðherra: „Ég á von á því að þetta muni ekki kosta ríkið neitt. Það er að vísu ákveðin áhætta sem ríkið tekur.“ Áhættan sem hér var vísað til snerist um virði þeirra eigna Sparisjóðsins sem fluttar voru í hinn nýja SpKef á móti innistæðum.

Afskipti stjórnvalda á þessu stigi málsins snerust um að vernda innistæðueigendur, en um þann þátt málsins sagði ráðherrann: „Við teljum að það muni ekki reyna á útgjöld ríkisins vegna innistæðutrygginga þannig að þetta er bara spurning um að leggja til eigið fé í upphafi og fá það aftur síðar.“

Þegar þetta gerðist hafði sparisjóðurinn verið í gjörgæslu stjórnvalda og eftirlitsstofnana í eitt og hálft ár. Eftir hrun bankakerfisins var sérstök ástæða til að gæta ýtrustu varkárni við eignamat. Gefist hafði nægur tími til að fá í það minnsta grófa hugmynd um virði eignanna.

Upp frá þessu hófust viðræður við slitastjórn Sparisjóðs Keflavíkur þar sem þess var freistað að ná samkomulagi um uppgjör vegna innistæðna og eigna. Tæpu ári eftir stofnun SpKef, eða í febrúar 2011, varð að lokum ljóst að ekkert yrði af slíku samkomulagi.

„Ekkert“ verður að 11,2 milljörðum

Slæm staða eignasafnsins virðist fyrst hafa runnið upp fyrir stjórnvöldum á síðari hluta ársins 2010. Tæpu ári eftir að ríkisstjórnin sagði ríkið ekki verða fyrir neinum fjárútlátum vegna SpKef var orðið ljóst að rúma 11,2 milljarða vantaði uppá til að yfirteknar eignir stæðu undir innistæðum. Þess utan þurfti um 8,2 milljarða sem eiginfjárframlag til að mæta kröfum um eiginfjárhlutfall ef halda ætti starfseminni áfram.

Í stað þess að endurreisa sparisjóðinn var ákveðið að starfsemin yrði sameinuð Landsbankanum. Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu 5. mars síðastliðinn kom m.a. fram að með þessari ráðstöfun væri tryggt að útgjöld ríkissjóðs vegna SpKef takmörkuðust við það sem á vantaði að heildareignir sparisjóðsins svöruðu til innistæðna. Með þessu var gefið í skyn að ljóst væri að endanlegur kostnaður ríkisins takmarkaðist við 11,2 milljarða. Það væri þó í öllu falli betra en 19 milljarðarnir sem það kostaði að endurreisa sparisjóðinn. Sú fjárhæð var sögð svo há að nýr efnahags-og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, sagði á Alþingi að það væri utan mannlegs valds að ganga í það verk.

Í besta falli var þetta einfaldlega enn eitt vanmatið hjá ráðherrunum tveimur, en í versta falli hrein blekking, til að breiða yfir þá stöðu sem smám saman var að koma í ljós. Fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra mátti vera ljóst að staða eignasafnsins væri jafnvel enn verri en komið hafði fram. Þetta má sjá af því að Landsbankinn sendi frá sér sína eigin tilkynningu vegna samrunans þar sem athygli er á því vakin að það væri hluti samkomulagsins um samrunann að virði eignanna yrði enn og aftur endurmetið.

Verða 11,2 milljarðar að 30 milljörðum?

Samkvæmt fréttum undanfarna daga er niðurstaða þess mats sem nú hefur verið framkvæmt að það vanti enn 20 milljarða til viðbótar svo eignirnar standi undir því mati sem fjármálaráðuneytið kynnti í mars. Samkvæmt því eru eignirnar rúmlega 30 milljörðum minni en yfirteknar innistæður.

Lengi hefur verið ljóst að eignir SpKef hafi verið verulega ofmetnar. Nú bendir margt til þess að við höfum einungis séð toppinn á ísjakanum.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa ítrekað byggst á röngu mati og fari fram sem horfir stefnir í hrikalegan skell fyrir íslenska skattgreiðendur. Sá skellur kemur í bakið á fólkinu í landinu, því stjórnvöld kynntu upphafsaðgerðir sínar þannig að þær yrðu án alls kostnaðar fyrir ríkissjóð.

Fjármálaráðherra hefur ekki borið til baka fréttir um að stjórnvöld hafi hugsanlega ofmetið eignir SpKef um 30 milljarða frá stofnun. Hver hyggst bera ábyrgð á þeim mistökum? Það er skýlaus krafa að nýtt mat Landsbankans á virði eignanna verði birt án frekari málalenginga.
Hvernig má það vera að tæpum þremur árum eftir að sparisjóðurinn komst í vandræði skeiki hvað eftir annað tugum milljarða við mat á virði eigna?

Þörf á ítarlegri rannsókn

Það er kominn tími til að ríkisstjórnin með undirstofnanir sínar og fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra í broddi fylkingar taki ábyrgð á þessu samfellda klúðri og svari þessum sjálfsögðu spurningum.
Eða ætlar fjármálaráðherrann áfram að láta eins og ágreiningur við Landsbankann um virði eigna SpKef sé eitthvert smámál? Er litið svo á að það sé betra að láta Landsbankann – ríkisbankann – taka skellinn? Undirliggjandi fjárhæð er hin sama og áætlaður kostnaður var af Icesave-samningnum sem féll í þjóðaratkvæði fyrir skemmstu.

Á að loka augunum og þegja yfir því að útgjöld ríkisins vegna þessa eina sparisjóðs gætu orðið rúmlega helmingur árlegra útgjalda til mennta og menningarmála í landinu?

Brýn þörf er á því að fara ofan í saumana á aðkomu stjórnvalda að málefnum Sparisjóðs Keflavíkur allt frá því haustið 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK