Evrópa tekur enn eina dýfuna

Frá kauphöllinni í Frankfurt í Þýskalandi.
Frá kauphöllinni í Frankfurt í Þýskalandi. Reuters

Evrópskar hlutabréfavísitölur hrundu í dag og eins og í síðustu viku voru það hlutabréf stórra banka sem leiddu hlaupið fram af bjargbrúninni.
Breska FTSE-vísitalan lækkaði um 4,49 prósent, þýska DAX-vísitalan um 5,82 prósent og franska CAC-vísitalan um 5,48 prósent.

Rétt eins og í síðustu viku, þegar hlutabréf sveifluðust gríðarlega í verði, eru það áhyggjur af efnahagsbata í heiminum og af skuldavanda ríkja evrusvæðisins sem valda þessum flótta fjármagns úr hlutabréfum í öruggari eignir. Gull hefur hækkað mikið í dag og er komið í 1.822 dali á únsuna.

Bankarnir lækka mest

Í áðurnefndum hlutabréfavísitölum voru stórir bankar efst á blaði yfir fyrirtæki sem lækkuðu í dag. Í Bretlandi lækkaði Barclays-banki um 11,47 prósent og Royal Bank of Scotland um 11,3 prósent. Í Þýskalandi lækkaði Commerzbank um 10,4 prósent og í Frakklandi lækkaði Societe Generale um ein 12,34 prósent.

Það sem virðist hafa verið kveikjan að lækkuninni í dag var frétt í Wall Street Journal um að bandarísk yfirvöld væru að rannsaka betur bandarísk útibú evrópskra banka. Hafa stjórnvöld áhyggjur af því að skuldavandi Evrópuríkja smiti bandaríska bankakerfið í gegnum þessi útibú. Þá kom í dag út ný hagvaxtarspá Morgan Stanley fyrir evrusvæðið þar sem spáð er minni hagvexti í ár og á næsta ári en gert hafði verið ráð fyrir í eldri spám.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK