Hærri skattar frá fjármálafyrirtækjum en fyrir hrun

Birna Einarsdóttir á ráðstefnu SFF í dag.
Birna Einarsdóttir á ráðstefnu SFF í dag.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sagði á ráðstefnu Samtaka fjármálafyrirtækja í dag, að útlit væri fyrir að ríkissjóður fengi hærri fjárhæð frá fjármálageiranum í opinber gjöld en á árunum fyrir hrun.

Þetta gerðist þrátt fyrir að fjármálakerfið væri einungis fimmtungur af þeirri stærð, sem það var á síðasta áratug. Sagði Birna að 60-70 milljarðar hefðu runnið í beinum greiðslum í ríkiskassann frá hruni og að útlit væri fyrir að opinber gjöld fjármálafyrirtækja yrðu 25,2 milljarðar á þessu ári.

Birna gagnrýndi áform um frekari skattheimtu og sagði að sérstakur nýr launaskattur, sem boðaður væri á fjármálafyrirtæki, þýddi að fjármálafyrirtæki myndu borga 20% skatt ofan á launin. Slíkt væri fáheyrt. „Það sér hver maður að þetta er algerlega galið og getur ekki gengið upp," sagði Birna og sagði að þetta væru séríslenskir skattar.

Hún sagði að mikil hagræðing hefði orðið í fjármálakerfinu og miklu máli skipti, að stjórnvöld skattlegðu ekki hagræðinguna í burtu eins og allt stefndi nú í.  Nýi skatturinn á að skila 4,5 milljörðum króna í ríkissjóð á næsta ári.

Birna gagnrýndi einnig mikinn kostnað við fjármálaeftirlitið sem áætlað er að nemi tæpum 3 milljörðum á næsta ári. Sagði  hún að miðað við fjölda banka væri það orðið mun umfangsmeira hér en í nágrannalöndunum. „Það er alveg sama hvað bætt verður á garðann, það er of seint að koma í veg fyrir hrunið árið 2008," sagði Birna.

Þingmenn verða að setja sig inn í mál

Fram kom hjá Birnu að öllum þingmönnunum, 63 að tölu, var boðið á ráðstefnuna í dag en mjög fáir hefðu þegið það utan Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem flutti erindi á ráðstefnunni.

Bauð Birna þingmönnum til fundar við fjármálageirann á næstunni svo hægt væri að eiga uppbyggilegar viðræður um stöðu mála þar.

Birna sagði að uppgjör bankanna væri flókið og yrði áfram um einhvern tíma. „Því verða stjórnmálamenn  að setja sig inn í það til að umræðan verði málefnaleg," sagði Birna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK