ESB-leiðtogar funda um evruna

Tuttugu og sjö leiðtogar Evrópusambandsins funda í dag um skuldavandann á evrusvæðinu. Markmið fundarins er að koma með áætlun um hvernig koma megi Grikkjum til bjargar en ekki síður hvernig megi endurvekja traust á mörkuðum. Leiðtogar evruríkjanna sautján munu síðan funda sérstaklega saman í dag. Aftur verður svo fundað á miðvikudag.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir evruvandann hafa áhrif á efnahag allra ríkjanna, einnig Breta og nauðsynlegt sé að taka á málinu. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segist hafa trú á því að leiðtogarnir geti komið með áætlun til verndar evrunni, fyrir fund þeirra á miðvikudag.

Þrýst á Ítali

Herman Van Rompuy, forseti ESB, og Merkel settu bæði pressu á forsætisráðherra Ítala, Silvio Berlusconi, í dag. Merkel krafðist þess að Ítalir kæmu með trúverðuga áætlun um hvernig þeir hygðust draga úr skuldum sínum og Van Rompuy sagði Ítali þurfa að sýna vilja til að leggja mikið á sig.

Vaxandi ótti er um að Grikkir ráði ekki við skuldir sínar og viðbrögð markaða sýna að einnig er óttast að stærri efnahagskerfi á við Spán og Ítalíu lendi í sambærilegum vandræðum. Þegar hefur verið gripið tvisvar til björgunaraðgerða vegna Grikkja, auk þess sem Írland og Portúgal hafa fengið björgunaraðstoð. Nú er unnið að þriðja björgunarpakkanum fyrir Grikki, auk þess sem unnið er að lausn fyrir Spán og Ítalíu sem standa tæpt.

Vandi Evrópu en ekki bara Grikklands

George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, segir að nauðsynlegt sé að grípa strax til aðgerða til að forðast að fjárhagsvandi Evrópu verði óviðráðanlegur. Það sé ljóst að fjárhagsvandinn sé ekki einkamál Grikkja heldur evrópskur vandi sem þurfi að takast á við sem fyrst.

Búist var við að umræður leiðtoganna snerust um björgunarsjóð Evrópu sem Frakkar vilja að sé bundinn við Seðlabanka Evrópu, aðgerð sem gæti mögulega þýtt ótakmörkuð framlög. Þýskaland leggst eindregið gegn slíku og telja sumir að slíkt gangi gegn reglum ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK