Sameiginleg sturlun

Willem Buiter á ráðstefnunni í Hörpu.
Willem Buiter á ráðstefnunni í Hörpu.

Willem Buiter, aðalhagfræðingur Citigroup, á ráðstefnu íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem haldin er í Hörpu í dag, lá ekkert á skoðunum sínum og sagði m.a. að Ísland hefði áratuginn fyrir hrun hefði verið dæmi um „sameiginlega sturlun" þar sem heilbrigð skynsemi hefði farið lönd og leið.

„Þetta var einskonar sameiginleg heimska, sem ég hef ekki séð í þróuðum löndum," sagði Buiter. Hann sagðist ekki skilja hvernig svona lítilli þjóð hafi dottið í hug að hún gæti stutt þrjá alþjóðlega banka með eignir sem voru nærri 1000% meiri en landsframleiðslan.

„Þið skulið vona að evran lifi af og að Evrópusambandið lifi af. Þá skulið þið ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna," sagði Buiter. „Það myndi þýða að þið hefðuð enga þörf fyrir sjálfstæðan seðlabanka og fjármálaeftirlit og vonandi mun Evrópa þróast í átt að sameiginlegu fjármála- og bankaeftirliti, sagði Buiter.

Buiter lýsti þeirri skoðun, að of miklar skuldir væru í íslenska kerfinu og það sé ein ástæða þess að hagvöxtur hér á landi sé ekki eins mikill og hann ætti að vera. Skuldir heimila eru of miklar, sömuleiðis skuldir fyrirtækja, skuldir banka og skuldir ríkisins. Það sem Ísland þyrfti á að halda væri einskonar trúarhátíð þar sem „skuldir væru fyrirgefnar" á 50 ára fresti eða svo.

Um Icesave-skuldirnar sagði Buiter að þar hefðu allir hagað sér illa, þar á meðal Holland og Bretland sem hefðu sýnt af sér yfirgang og sjálfselsku með því að lýsa því yfir að Icesave-skuldbindingarnar væru á ábyrgð íslenska ríkisins, þótt svo hefðu augljóslega ekki verið.

En Ísland hefði augljóslega jafnframt brotið reglur Evrópska efnahagssvæðisins með því að skilja á milli innlendra og erlendra innistæðueigenda íslensku bankanna. Góðu fréttirnar virtust þó vera þær, að eignir Landsbankans virtust ætla að nægja fyrir Icesave-innistæðunum.

Þá sagði Buiter, að varðandi innlendu skuldirnar ætti annaðhvort að afskrifa þær eða breyta þeim í hlutafé. Buiter sagði að svonefnd 110% leið, sem nú er verið að fara hér á landi, væri „brjálæði." Lækka ætti skuldirnar niður í 70% og láta bankana breyta afganginum í hlutafé.

Hann gagnrýndi hvernig bönkunum hefði verið skipt upp eftir hrunið í innlenda og erlenda starfsemi. Skipta hefði átt bönkunum upp eftir góðum og slæmum eignum og það væri raunar  ekki of seint. Enn væri hægt að skipta innlendu bönkunum í „góða og slæma" banka þannig að góðu bankarnir geti lánað fé.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK