Umhverfið hér ófyrirsjáanlegt

mbl.is

Ófyrirsjáanlegt viðskiptaumhverfi sökum óskýrra leikreglna og oft á tíðum matskenndrar ákvörðunartöku stjórnvalda eru helstu ástæður þess að erlendir fjárfestar óttast að ráðast í beina erlenda fjárfestingu á Íslandi.

Um þetta voru allir fyrirlesarar sammála á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs og Íslandsstofu um áhrif beinnar erlendrar fjárfestingar á endurreisn íslensks hagkerfis og efnahagsþróun til framtíðar.

Í opnunarávarpi sínu sagði Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, mikilvægt að Ísland kæmist út úr því matskennda umhverfi sem ríkti um þessar mundir þegar kæmi að erlendri fjárfestingu. Það væri ekki boðlegt að búa við það ástand að í hvert skipti sem erlendir fjárfestar sýndu áhuga á Íslandi skapaðist uppnám í samfélaginu.

Að sögn Katrínar er nauðsynlegt að búa til umhverfi sem gerir erlendum fjárfestum kleift að átta sig á með skýrum hætti hvers konar leikreglur bíði þeirra þegar þeir fjárfesta á Íslandi. Hún bætti því jafnframt við að það væri skýrt kveðið á um það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að stefna bæri að því að auka beina erlenda fjárfestingu á Íslandi.

Samkeppni um erlenda fjárfestingu

Fram kom í máli Aðalsteins Leifssonar, formanns starfshóps um tillögugerð  að stefnu stjórnvalda varðandi erlenda fjárfestingu, að öll ríki væru um þessar mundir að keppa að því að reyna laða til sín erlenda fjárfestingu – ekki síst lítil og opin hagkerfi. Starfshópur iðnaðarráðherra leggur til að nefnd um erlenda fjárfestingu verði lögð niður og lög um fjárfestingu erlendra fjárfesta í atvinnurekstri verði numin úr gildi enda sé fjallað um hömlur á fjárfestingum í einstaka atvinnugreinum í sérlögum

Aðalsteinn benti á að „erlenda fjárfestingu á ekki að laða að með vísan í lág laun eða lágt orkuverð. Ísland getur ekki og á ekki að keppa við önnur lönd á þeim grundvelli, heldur fremur að leitast við að verða samkeppnishæft á öðrum sviðum. Ekki á heldur að keppa um erlenda fjárfestingu með vísan í veikburða umhverfislöggjöf eða með því að ganga á önnur lífsgæði Íslendinga.”

Fjárfesting er í sögulegu lágmarki á Íslandi um þessar mundir en um leið er fjárfesting forsenda afnáms gjaldeyrishafta. Að sögn Aðalsteins er bein erlend fjárfesting skilvirkasta leiðin til að auka verðmætasköpun í samfélaginu – einkum í ljósi þess að frekari aukning í verðmætasköpun í okkar helstu útflutningsgreinum er takmörkunum háð.

„Bein erlend fjárfesting skapar oft ekki einungis störf og verðmæti heldur getur hún og aukið fjölbreytni í atvinnulífi og í útflutningsgreinum. Almennt gildir sú regla að því fjölbreyttari sem útflutningur er, því minni verða ófyrirséðar sveiflur í verðmæti hans,” sagði Aðalsteinn.

Hann benti sömuleiðis á að vandamálið á þessari stundu væri sú skynjun erlendra fjárfesta að það væri áhættusamt að koma hingað vegna þess að reglurnar væru í mörgum tilfellum ekki skýrar. „Tilfinningin er sú, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að það sé matskennd ákvörðun ráðherra sem ráði oft úrslitum hvernig móttökur erlend fyrirtæki fá hér á landi.”

Tækifæri í matvælaframleiðslu

Stefanía Karlsdóttir, framkvæmdastjóri Matorku, sagði mikil tækifæri fyrir Ísland í grænum og umhverfisvænum fjárfestingum, meðal annars sökum sérstöðu Íslands – vatnið, orkan, landið og jarðvarminn. Fram kom í erindi Stefaníu að næstu áratugi þyrfti að tvöfalda matvælaframleiðslu í heiminum og samfara þeirri þróun skapaðist ört vaxandi markaður fyrir matvæli – ekki síst góð og hrein matvæli sem fólk væri tilbúið að greiða hátt verð fyrir. Ísland hefði mikil tækifæri í þeim efnum þegar haft væri í huga að matvæli væru um 80-90% vatn en reiknað er með því að eftir 20 ár verði spurn eftir vatni 40% meiri en framboð á heimsvísu.

Stefanía sagði erlenda fjárfesta ekki forðast Ísland vegna bankahrunsins eða Icesave. Þeir þættir skiptu litlu sem engu máli heldur væri það miklu fremur lagaumhverfið og starfsumhverfi fyrirtækja sem fjárfestar hefðu mestar áhyggjur af.

„Leikreglurnar verða að vera svipaðar og í öðrum löndum. Erlendir fjárfestar skilja ekki þegar ítrekað er verið að breyta reglunum án nokkurra málefnalegra ástæðna,” að sögn Stefaníu.

Að mati Stefaníu er vel hægt að stefna að því til lengri tíma að matvælaframleiðsla á Íslandi gæti gefið um 200 milljarða króna í gjaldeyristekjur til þjóðarbúsins, sem er sambærileg upphæð og sjávarútvegurinn og stóriðjan eru að skila.

 Ísland er ekki eyland

Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri PrimaCare, lagði áherslu á í erindi sínu að Ísland væri ekki eyland þegar kæmi að erlendum fjárfestingum. Ísland væri hvorki merkilegra eða ómerkilegra en önnur ríki og því þyrfti að hafa fyrir því að kynna þá möguleika sem hér eru til staðar fyrir erlenda fjárfesta – af því að þeir væru ekkert endilega með augun á Íslandi.

Að sögn Gunnars færi hins vegar of mikill tími í það í hans starfi þegar hann reyndi að laða að erlenda aðila til að fjárfesta í ferðatengdri heilsuþjónustu að útskýra fyrir þeim hvað íslensk stjórnvöld væru að meina og segja hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK