Verðbólgan 6,5%

Verð á fötum og skóm hefur lækkað um 10,3% í …
Verð á fötum og skóm hefur lækkað um 10,3% í janúar þar sem vetrarútsölur eru í fullum gangi mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í janúar hækkaði um 0,28% frá fyrra mánuði. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,5% og er þetta meiri verðbólga heldur en greiningardeildir höfðu spáð. IFS greining og greining Íslandsbanka höfðu spáð því að verðbólgan færi í 6,3% í janúar en greiningardeild Arion-banka hafði spáð því að verðbólga mæld á tólf mánaða tímabili færi í 6,2%.

Mesta verðbólga í 20 mánuði

Verðbólgan nú er sú mesta sem mælst hefur á Íslandi í tuttugu mánuði eða frá því í maí 2010 en þá var verðbólgan 7,5%

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,05% frá desember. Vísitalan án húsnæðis hefur undanfarna tólf mánuði hækkað um 5,7%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,7% sem jafngildir 2,6% verðbólgu á ári (1,0% verðbólgu fyrir vísitöluna án húsnæðis).

Opinber gjöld auka verðbólguna

Í frétt Hagstofu Íslands kemur fram að vetrarútsölur eru í fullum gangi og lækkaði verð á fötum og skóm um 10,3% (vísitöluáhrif -0,61%) og á húsgögnum, heimilisbúnaði o.fl. um 2,2% (-0,14%). Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 13,7% (-0,15%).

Verð á opinberri þjónustu hækkaði um 5,8% (0,45%). Þar af hækkuðu gjöld fyrir sorphirðu, holræsi og vatn um 12,6% (0,19%) og gjaldskrár orkuveitna fyrir rafmagn og hita hækkuðu um 4,4% (0,14%). Verð á bensíni og díselolíu hækkaði um 5,2% (0,30%) og verð dagvöru hækkaði um 0,8% (0,13%). Þá hækkaði verð á áfengi og tóbaki um 2,8% (0,10%).

Vísitöluáhrif af hækkun opinberra gjalda á áfengi, tóbak og bílaeldsneyti voru 0,16%.

Verðbólgan hvergi jafn mikil og á Íslandi á EES-svæðinu

Í desember, líkt og á síðustu mánuðum var verðbólgan mest hér á landi (5,3%) í desembermánuði af löndum Evrópska efnahagssvæðisins. Verðbólgan jókst á Íslandi meðan hún dróst saman í flestum öðrum ríkjum. Því virðist ljóst að Ísland heldur forystunni hvað varðar verðbólgu á EES-svæðinu í janúar líkt og undanfarna mánuði.

Ef litið er til þeirra liða sem hafa hækkað mest undanfarna tólf mánuði hafa búvörur og grænmeti hækkað um 8,4% og innlendar vörur og grænmeti um 6,7%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK