Fitch hækkar einkunn Íslands

mbl.is

Matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur hækkað lánshæfiseinkunn Íslands úr BB+ í BBB- og staðfest langtímaskuldbindingar íslenska ríkisins, BBB+.

Í janúar hafði Fitch sagt að ákvörðun Seðlabanka Íslands um að kaupa evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur væri jákvætt skref í átt til losunar hafta á fjármagnsviðskiptum.

Paul Rawkins, framkvæmdastjóri lánshæfiseinunna hjá Fitch, segir hækkun lánshæfiseinkunnar Íslands endurspegla þann stöðugleika sem hafi skapast í efnahagslífi landsins.

Í tilkynningu frá Fitch segir að jákvæð þróun hafi orðið í efnahagslífi Íslands. Endurskipulagning fjármálakerfisins sé langt komin, en skuldir hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafi náð hámarki og öflugt aðhald sé í ríkisfjármálum.

Samstarfi Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn lauk formlega í ágúst á síðasta ári en það stóð í þrjú ár. „Þrátt fyrir viss áföll á leiðinni lagði áætlun AGS grundvöll að því að Ísland fengi á ný aðgang að alþjóðlegum lánamarkaði og styrkti hagvöxt sem var um 3% á síðasta ári,“ segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni er Íslandi hrósað fyrir árangur í ríkisfjármálum. Hallinn á ríkissjóði hafi verið 6,5% árið 2009, en hafi verið 0,5% í fyrra. Í ár sé stefnt að jákvæðum frumjöfnuði og að ríkissjóður verði rekinn með afgangi árið 2014.  Sveigjanlegir atvinnu- og framleiðslumarkaðir og fljótandi gengi hafi stuðlað að jafnvægi í utanríkisviðskiptum og haldið niðri atvinnuleysi. Fjármálageirinn hafi auk þess dregist saman og sé nú um einn fimmti af stærðinni fyrir hrun.

Fitch segir að skuldir ríkissjóðs hafi verið um 100% af landsframleiðslu á síðasta ári ef  skuldbindingar vegna Icesave eru undanskildar. Flest bendi til að þetta hlutfall fari lækkandi. Nettóskuldahlutfall Íslands sé um 65%.

Fitch segir að fram að þessu hafi kreppan á evrusvæðinu haft lítil áhrif á Íslandi. Ólíklegt sé að samdráttarskeið hefjist á Íslandi aftur í bráð. Fitch bendir þó á að skuldir heimila og fyrirtækja séu enn miklar. Skuldir heimila séu um 200% af tekjum og skuldir fyrirtækja um 210% af tekjum. Nauðsynlegt sé að þetta hlutfall lækki.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK