Milljarða velta í gegn um kerfi Mobilitus

Þórarinn Stefánsson
Þórarinn Stefánsson

Íslenska sprotafyrirtækið Mobilitus er með 30% markaðshlutdeild í sölu í gegn um farsíma (e. Mobile e-commerce) í Bandaríkjunum, þökk sé samstarfi fyrirtækisins við Ticketmaster og Live Nation Entertainment. Milljónir manna nota kerfi Mobilitus til að kaupa miða á leikhús, skemmtanir, tónleika og kappleiki ýmis konar og er umtalsverður vöxtur frá mánuði til mánaðar.


„Við veltum í gegn um kerfið hjá okkur um það bil einu CCP á síðasta ári, svo þetta sé sett í eitthvað samhengi sem maður skilur,“ segir Þórarinn Stefánsson, annar stofnenda Mobilitus, en hann stofnaði félagið ásamt Helgu Waage árið 2009.

Stofnendur Mobilitus töldu sig sjá það fyrir að snjallsímar og töflutölvur yrðu helsta aðgangstæki fólks að netinu - og að hefðbundnum tölvubúnaði yrði skákað fljótt - og bjuggu til kerfi sem gerði það auðvelt að setja fram efni á formi sem hentaði þessum tækjum. Þetta aðgengi fólks að upplýsingum hvar sem það er statt kemur til með að gjörbreyta neyslu vefefnis og leggja fyrirtæki eins og Google mikla áherslu á að fyrirtæki séu dugleg að bregðast við, ganga reyndar svo langt að halda því fram að menn eigi fyrst að hugsa um farsímanotendur og síðan almenna vefnotendur í þróun veflausna.

Hefja markaðssetningu lausna fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki


Mobilitus er nú að hefja markaðssetningu lausnar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem gerir þeim kleift að smíða farsímavænar útgáfur af vefjum sínum á örfáum mínútum. Fyrirtækið beinir þar sérstaklega sjónum að þeim fyrirtækjum sem þegar selja miða sína í gegn um farsímaviðmót Mobilitus, en það eru um 30 þúsund fyrirtæki, tónleikasalir, félagslið, listamenn og umbjóðendur þeirra. Einnig er horft til afleiddra markhópa, t.d. veitingahúsa í nágrenni tónlistarhalla.

Mobilitus hefur þegar unnið verkefni fyrir stærri aðila eins og Major League Baseball, Los Angeles Lakers, Bacardi og PGA golfmótaröðina og hefur þannig fengið eftirspurn eftir þjónustunni staðfesta. Fyrsti viðskiptavinur nýju lausnarinnar verður veitinga- og tónleikahúsakeðjan House of Blues.

„Við erum að heyra að ríflega helmingur heimsókna á vefi listamanna komi nú frá töflum og símum - sem þýðir einfaldlega að þeir þurfa að gjörbreyta allri hönnun og tæknivinnslu, færa sig frá Flash-drifnum vefjum yfir í opnari staðla og skalanlegra útlit,“ segir Þórarinn.

„Sama má segja um veitingahús sem hafa haft tilhneigingu til að setja fram matseðla á PDF formi, sem einfaldlega virkar ekki í þessum græjum.“
Græjurnar eru síðan mismunandi og er Mobilitus kerfið að birta efni aðlagað að 28 mismunandi skjástærðum farsíma og taflna - auk þess sem hægt er að nota það til að birta fullvaxta vefi.

Hyggja á frekari markaðssókn


Núverandi markaðssvæði Mobilitus nær til Bandaríkjanna, Kanada, Norðurlandanna og Þýskalands og hyggur Mobilitus á frekari markaðssókn á þessum svæðum eftir því sem notkunarmynstur og vöxtur gefur tilefni til. Lausnir félagsins eru seldar í áskrift sem tryggir stöðugar tekjur og einfaldari rekstur og er áskriftargjald allt frá nokkrum tugum dollara á mánuði til tugþúsunda, allt eftir umfangi.

Fyrirtækið hefur verið fjármagnað með tekjum einvörðungu og sniðið sér stakk eftir vexti. Mobilitus fékk brúarstyrk úr Tækniþróunarsjóði til erlends markaðsstarfs og hefur nú lokið þeim hluta verkefnisins. Velta félagsins á árinu 2012 er áætluð á bilinu 150-200 milljónir króna og er þriðjungur hennar þegar í húsi með þeim samningum sem gerðir hafa verið. Vaxtarhraðinn ræðst að miklu leyti af því hversu hratt hægt verður að byggja upp sölustarf erlendis - sem einkennist af beinni sölu og úthringingum - en uppbyggingu mætti hraða með innspýtingu fjármagns segir Þórarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK