Minni fjárlagahalli í Kanada

Jim Flaherty, fjármálaráðherra Kanada.
Jim Flaherty, fjármálaráðherra Kanada. Reuters

Fjármálaráðherra Kanada sagði í dag að hann byggist við minni halla í ríkisfjármálum á komandi fjárlagaári og að niðurskurður yrði minni en búist var við. Er þetta tilkomið vegna batnandi efnahagsforsenda í Kanada og í Bandaríkjunum en spár höfðu gefið til kynna.

„Ég er ánægður með að það líti út fyrir minni halla á þessu ári,“ sagði Jim Flaherty, fjármálaráðherra, eftir fund í dag með hagfræðingum til að ræða útkomu fjárlaga, en þau verða kynnt 29. mars nk. skömmu áður en nýtt fjárlagaár tekur gildi í Kanada.

„Ég vil tryggja að hallinn verði lægri á næsta ári og að á næstu árum náist jafnvægi í ríkisfjármálum.“

Á föstudag var tilkynnt að efnahagur Kanada hafi vaxið um 2,5% á síðasta ári sem var örlítið meira en seðlabankinn þar í landi hafði áður spáð til um, en aukin fjárfesting á síðasta ársfjórðungi hafði talsverð áhrif á þessa aukningu.

„Sem betur fer er gott ástand á ríkisfjármálum Kanada. Við munum ekki þurfa stórfelldan niðurskurð,“ sagði Flaherty við blaðamenn í dag.

Hann sagði að hagfræðingarnir sem hann hafi ráðfært sig við hafi komist að þeirri niðurstöðu að það yrði hægur hagvöxtur framundan í Kanada, en að þeir hafi lýst yfir áhyggjum með stöðu mála í Evrópu sem hann sagðist taka undir.

„En það kom fram nokkur bjartsýni gagnvart Bandaríkjunum (stærsta viðskiptalandi Kanada), sem ég tek einnig undir,“ sagði ráðherrann.

Í nóvember voru hallaspár fyrir yfirstandandi fjárlagaár í Kanada lækkaðar í 31 milljarð Kanadadollara, en hallinn hafði áður verið áætlaður 36,2 milljarðar. Mestur varð hallinn þó 55,6 milljarðar Kanadadollara á fjárlagaárinu 2009-2010, í þeim samdrætti sem landið gekk þá í gegnum.

Fjármálaráðuneytið áætlar að jafnvægi verði komið á í ríkisfjármálum landsins á fjárlagaárinu 2015-2016.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK