Stefnir í rekstur á ný

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Ómar

Jón Ásgeir Jóhannesson stefnir að því að byggja upp nýtt verslunarveldi þegar málaferlum gegn honum lýkur. Þetta kemur fram í viðtali við Jón Ásgeir á Bloomberg.

„Ég hef enn áhuga á rekstri og er með áætlanir um að halda áfram í rekstri,“ segir Jón Ásgeir.

Hann segist ekki hafa áhuga á að byggja upp nýtt stórveldi. Það sem hann hafi áhuga á sé að byggja upp lítið veldi og að reka það sómasamlega. „Ég hef áhuga á Bretlands- og Bandaríkjamarkaði og á mörkuðum út frá þeim,“ segir Jón Ásgeir.

Ætlar ekki að missa stjórn á hlutunum á ný

Eignir Jóns Ásgeirs voru metnar á 1,6 milljarða Bandaríkjadala, rúma 200 milljarða króna, fyrir hrun. Hann er sannfærður um að máli sem slitastjórn Glitnis hefur höfðað gegn honum verði vísað frá. Það gefi honum tækifæri á að fara á stað á ný og í þetta skipti muni hann ekki missa stjórn á hlutunum. Hann sé 44 ára og fullur orku og hafi margar hugmyndir sem muni nýtast honum vel í seinni hálfleik.

Jón Ásgeir segist ekki hafa fylgst nægjanlega með því sem var að gerast á Íslandi þar sem hann hafi átt í viðskiptum við  fólk sem var vant miklum lífsgæðum á sínum heimamarkaði og því hafi það farið fram hjá honum að umsvif hans hafi þótt óhófleg fyrir meðalmanninn í Reykjavík.

Að sögn Jóns Ásgeirs hefur hann framfæri af ráðgjafarstörfum fyrir fyrirtæki í Bretlandi en skýrir það ekki nánar. Hann stefni hins vegar á sjálfstæðan rekstur í smásölu. Þar eigi sér stað miklar breytingar og netið hafi skipt sköpum þar um og muni áfram hafa áhrif á neyslumynstur almenning. Verslunarmiðstöðvar skipti sífellt minna máli.

Jón Ásgeir segir í viðtalinu við Bloomberg að það sé ekki niðursveiflan í efnahagslífinu sem er að ganga af versluninni dauðri heldur skipti breytt innkaupamynstur fólks meira máli. Hans helstu mistök hafi verið að halda áfram að vaxa eftir yfirtökuna á  Big Food Group Ltd. í desember 2004 sem hann keypti á 326 milljónir punda.

Ísland heillar hann ekki

Þegar hann horfi til baka sé auðvelt að segja að hann hafi átt að stoppa þar. Ef hann hefði gert það væri hann sennilega einn ríkasti maður í Evrópu. „Auðvitað sé ég eftir því en maður verður að lifa og læra.“

Þrátt fyrir að hagvöxtur sé meiri á Íslandi en víðast hvar í nágrannalöndunum hefur hann ekki áhuga á rekstri á Íslandi heldur ætlar að yfirgefa landið um leið og málaferlum gegn honum lýkur.

„Íslenski markaðurinn heillar mig ekki,“ segir Jón Ásgeir í viðtalinu og bætir við að hann ætli sér ekki að vera hér miklu lengur.

Viðtalið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK