Hagnaðist um 16,9 milljarða

mbl.is/Hjörtur

Afkoma Landsbankans hf. var jákvæð um 16,9 milljarða króna eftir skatta á árinu 2011. Arðsemi eigin fjár var 8,8%. Til samanburðar nam hagnaður ársins 2010 27,2 milljörðum króna og var arðsemi eigin fjár þá 15,9%.

Eiginfjárhlutfall (CAD) Landsbankans er nú 21,4%  og hefur hækkað úr 19,5% í lok árs 2010. Núverandi eiginfjárhlutfall er vel umfram það 16% lágmark sem Fjármálaeftirlitið gerir kröfu um.

Eigið fé Landsbankans er rúmir 200 milljarðar króna. Heildareignir bankans námu 1.135 milljörðum króna í árslok. Virðisrýrnun útlánasafns er  23,6 milljarðar eftir að tekið hefur verið tilliti til gjaldfærslna vegna gengislánadóms, virðisaukningar í útlánasafninu og þess hlutar sem rennur til LBI. Hagnaður af hlutabréfastöðu bankans nam 18 milljörðum  króna á árinu 2011. Rekstrarkostnaður bankans nam 21,4 milljörðum króna en þar af nam launakostnaður 12 milljörðum og önnur rekstrargjöld 8,4 milljörðum. Áhrif dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar síðastliðnum, á rekstrareikning bankans, eru áætluð 38 milljarðar króna.

Haft er eftir Steinþóri Pálssyni bankastjóri Landsbankans í fréttatilkynningu um afkomuna. „Árið 2011 var á margan hátt gott ár fyrir Landsbankann og  við náðum flestum markmiðum okkar.  Meginverkefnið var endurskipulagning skulda viðskiptavina bankans og hefur mikið áunnist á því sviði.  Þó er enn verk að vinna og staða margra er erfið.  Það er keppikefli allra, hvort sem er innan bankans eða utan, að efnahagslífið vaxi og hagur heimila og fyrirtækja vænkist.  Bankinn hefur jafnframt unnið að innleiðingu á nýrri stefnu sem styrkir bankann til framtíðar.  Nýfallnir dómar hafa ekki verið nægjanlega skýrir og hafa því valdið óvissu um hvernig fara á með ólögmæt lán og haga endurútreikningi þeirra.  Við höfum kosið að sýna ýtrustu varúð í mati okkar á áhrifum dóms Hæstaréttar um vexti frá í febrúar. Ljóst er að fleiri dómar þurfa að falla áður en myndin skýrist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK