1,9 milljarða hagnaður hjá Íslandsbanka

Íslandsbanki við Kirkjusand.
Íslandsbanki við Kirkjusand. mbl.is/Ómar

Hagnaður Íslandsbanka á síðasta ári eftir skatta af reglulegri starfsemi var 13,9 milljarðar, samanborið við 17,8 milljarða árið 2010. Hagnaður ársins eftir skatta að teknu tilliti til einskiptisliða, s.s. væntra áhrifa gengislánadómsins og niðurfærslu á viðskiptavild, nam 1,9 milljörðum króna, samanborið við 29,4 milljarða  2010. 

Í uppgjöri bankans kemur fram að á fjórða ársfjórðungi gætti áhrifa vegna virðisrýrnunar á viðskiptavild í kjölfar yfirtöku Byrs sem veldur einskiptiskostnaði upp á 17,9 milljarða króna.

Nettó gjaldfærsla vegna endurmats lánasafnsins nam 1,3 milljörðum króna, samanborið við 14,5 milljarða króna tekjufærslu á sama tímabil árið áður. Áætlaður kostnaður af dómi Hæstaréttar um vaxtareikning gengislána frá því í febrúar nemur 12,1 milljarði króna. Enn ríkir óvissa m.a. um fordæmisgildi dómsins og aðferð endurútreiknings.

Arðsemi eiginfjár af reglulegri starfsemi bankans eftir skatta var 11,0% á ársgrundvelli. Sé tekið tillit til einskiptiskostnaðar var arðsemi eiginfjár 1,5%.

Um 17.600 einstaklingar og 2.700 fyrirtæki hafa fengið afskriftir, eftirgjafir eða leiðréttingar á skuldum frá stofnun bankans sem nemur um 343 milljörðum króna.

Heildareignir námu 795.9 milljörðum króna við árslok, samanborið við 683,2 milljarða árið 2010. Hækkunin skýrist af sameiningu Íslandsbanka og Byrs.

Heildarinnlán námu 525,8 milljörðum króna við árslok, samanborið við 423,4 milljarða árið 2010.

Stoðir undir fjármögnun voru styrktar þegar Íslandsbanki var fyrsti bankinn til að skrá sértryggð skuldabréf að upphæð 4 milljarða króna á NASDAQ OMX kauphöllinni á Íslandi.

Eigið fé nam  123,7 milljörðum við árslok og jókst um 2% á tímabilinu. Eiginfjárhlutfall var 22,6%, sem er töluvert umfram það 16% lágmark sem FME setur bankanum.

Mikilvægt að eyða óvissu um gengisdóm

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir hagnað af reglulegum rekstri bankans á síðasta ári viðunandi.

„Efnahagsreikningur bankans er traustur sem hefur gert okkur kleift að takast á við síbreytilegar forsendur í rekstrarumhverfinu. Eignir sem fluttust yfir til bankans við sameininguna við Byr hafa verið færðar niður sem og viðskiptavild tengd kaupunum til að takmarka óefnislegar eignir í efnahagsreikningi Íslandsbanka. Þá hefur einnig verið færð varúðarfærsla vegna nýfallins gengislánadóms Hæstaréttar, en ljóst er að hann hefur veruleg áhrif á afkomu bankans. Afar mikilvægt er að þeirri óvissu sem enn ríkir um gengislánamálin verði eytt sem allra fyrst,“ er haft eftir Birnu í fréttatilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK