Ótti er innan bankanna um áhrif nýju laganna

Talsmenn bankanna hafa áhyggjur af langtímaáhrifum kvótafrumvarpsins.
Talsmenn bankanna hafa áhyggjur af langtímaáhrifum kvótafrumvarpsins. mbl.is/RAX

Útlán stærstu bankanna þriggja til sjávarútvegsins eru hátt í 300 milljarðar króna og því liggur mikið við að rekstur hans gangi vel.

Fyrir Alþingi liggur nýtt frumvarp um stjórnun sjávarútvegs þar sem m.a. er gert ráð fyrir veiðigjaldi á sjávarútvegsfyrirtæki sem veiða meira en 100 tonn sem geti orðið um 70% af EBITDU fyrirtækjanna eftir að árgjaldið hefur verið dregið af henni.

Þegar rætt er við fulltrúa bankanna segjast þeir allir vera með það í skoðun hvaða áhrif þessi gjaldtaka muni hafa.

Eins og sjá má í áhættuskýrslu Íslandsbanka fyrir árið 2011 eru tæp 13% útlána bankans til sjávarútvegsins eða um 70 milljarðar íslenskra króna.

Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi bankans, segir að ljóst sé að áhrifin af frumvarpinu séu margbrotin og því muni taka tíma að yfirfara þau út frá hverjum lántaka.

Landsbankinn er langstærstur í útlánum til sjávarútvegsins með um 135 milljarða í útlánum til hans en það eru um 20% af útlánum bankans. „Landsbankinn á sér langa sögu og rekur mörg útibú úti á landi þannig að við höfum alltaf haft sterk tengsl við sjávarútveginn,“ segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi bankans. „Það er ljóst að mikið er undir en við erum að setjast yfir frumvarpið og það er of snemmt að fullyrða eitthvað um áhrifin.“

Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, hefur svipaða sögu að segja og segir hann aðeins að þetta sé í skoðun. Hjá Arion banka er ekki hægt að fá nákvæmar upplýsingar um hversu mikil útlánin eru til sjávarútvegsins en tæpir 62 milljarðar, eða 11,1% útlánanna, eru til þess sem kallað er skógrækt, landbúnaður og sjávarútvegur. Ætla má að þar sé stærstur hlutinn, eða 70-80%, til sjávarútvegsins sem eru þá 43-50 milljarðar. Samanlagt eru þá útlánin til sjávarútvegsins hjá bönkunum þremur hátt í 300 milljarðar króna.

Gæti fellt veiku fyrirtækin

Fæstir viðmælenda í bönkunum telja að til fjöldagjaldþrota komi ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt eða að höggið á bankana verði verulegt. Í það minnsta fyrst um sinn. En menn eru samt sem áður mjög hikandi og óttast langtímaáhrif laganna á atvinnugreinina, verði þau samþykkt.

Fyrr í vikunni lýsti Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, því yfir að breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu hefðu slæm áhrif á fjárfestingar fyrirtækja og að verulegar breytingar á kerfinu myndu draga úr arðsemi fyrirtækjanna. Flestir horfa til þess að til langs tíma muni þetta hafa mjög slæm áhrif á sjávarútveginn.

En skammtímaáhrifin verða að flestra mati þau að verr settu fyrirtækin sem þegar hafa farið í gegnum endurskipulagningu munu þurfa slíkt aftur enda búið að laska rekstrargrundvöll þeirra nokkuð.

Ýmsir benda þó á það að ef litið er framhjá veiðileyfagjaldinu, þá sé margt í frumvarpinu betra en var í því frumvarpi sem lagt var fram í fyrra. Bæði Landsbankinn og Arion banki gerðu ítarlegar skýrslur um það frumvarp og vöruðu alvarlega við því og áhrifum þess. Í nýja frumvarpinu er ekki búið að taka fyrir óbeina veðsetningu eins og var gert í fyrra frumvarpinu og ekki er búið að banna að kvóti sé áframseldur. En þar orkar samt enn þá margt tvímælis að mati fólks í bönkunum.

Útlán til sjávarútvegs

» Landsbankinn er með útlán upp á 135 milljarða til sjávarútvegsins eða um 20% útlána sinna
» Íslandsbanki er með 70 milljarða eða tæp 13%
» Arion banki er líklega með á bilinu 43-50 milljarða

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK