Verðbólgan mest hér

Reuters

Verðbólgan var hvergi meiri á evrópska efnahagssvæðinu og hér á landi í mars á sama tíma og dregið hefur úr verðbólgu í flestum löndum Evrópu. Er þetta sjöundi mánuðurinn í röð sem verðbólgan er mest hér á landi.

Verðbólga mældist 2,7% á evrusvæðinu í mars sl. miðað við samræmda vísitölu neysluverðs. Er tólf mánaða taktur vísitölunnar þar með hinn sami og hann var í febrúar, sem og sá sami og fyrir ári síðan.

Verðbólgan mældist aðeins meiri sé tekið mið af öllum ríkjum evrópska efnahagssvæðisins (EES) en þó er sagan svipuð. Þannig mældist árstaktur samræmdu vísitölunnar 2,9% í mars, sem er óbreytt frá síðustu tveimur mánuðum, en þó hefur aðeins dregið úr verðbólgunni frá því í mars í fyrra en þá mældist hún 3,1% á svæðinu, segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Orkan hefur mikil áhrif

Þegar litið er á árstaktinn á samræmdu vísitölunni og einstaka flokkar vísitölunnar eru bornir saman má sjá að hækkunin er einna mest á liðum þar sem orkuverð kemur við sögu. Má hér nefna ferðir og flutninga (4,6%) og svo húsnæðisliðinn (4,0%) sem felur í sér húsaleigu, hita og rafmagn.

„Er þetta í takti við það sem verið hefur að undanförnu, enda hefur orkuverð verið einn helsti áhrifavaldur mikillar verðbólgu að undanförnu. Óhætt er því að fullyrða að þróun verðbólgunnar sé síður en svo til marks um mikinn gang í efnahagslífinu.

Má hér nefna að tunnan af Brent hráolíu kostaði að meðaltali tæpa 115 Bandaríkjadollara í mars í fyrra en í mars sl. var hún á tæpa 126 dollara, og jafngildir þetta hækkun upp á tæp 10%. Einnig hefur orðið töluverð hækkun á áfengi og tóbaki (4,4%) síðasta árið, en minnsta verðhækkunin milli ára hefur verið á verði póst- og símaþjónustu sem hefur í raun lækkað um 2,8% milli ára. Einnig hefur lítil hækkun verið á tímabilinu á tómstundum og menningu (0,7%) og svo menntun (0,9%),“ segir í Morgunkorni.

Árstaktur lækkar annars staðar en á Íslandi þar sem hann hækkar mikið

Á sama tíma og dregið hefur úr árstakti samræmdu vísitölunnar í flestum löndum Evrópu síðasta árið hefur hann aukist verulega hér á landi. Nú í mars mældist verðbólgan hér á landi 7,8% miðað við samræmdu vísitöluna og hefur hún ekki verið meiri í tæp tvö ár, eða síðan í maí árið 2010.

Jafnframt jókst verðbólgan mjög mikið frá því í febrúar, en þá mældist hún 6,7%, og sé tekið mið af þróuninni síðasta árið má sjá að hún hefur aukist langmest hér á landi. 

„Í mars fyrir ári síðan mældist hún 2,3% miðað samræmdu vísitöluna, og hefur hún þar með aukist um 5,5 prósentustig frá þeim tíma. Þess má geta að verðbólgan jókst næstmest á þessum sama tíma í Tékklandi. Þar mældist verðbólgan 4,2% nú í mars, samanborið við 1,9% í mars fyrir ári og er munurinn þar á milli augljóslega mun minni en hér á landi, eða sem nemur um 2,3 prósentustigum.

Kemur ekki á óvart að verðbólgan hafi mælst mest hér á landi í mars af löndum EES, og er það sjöundi mánuðurinn í röð sem svo ber uppi. Verðbólgan var næstmest í Ungverjalandi (5,5%) í mánuðinum og þar á eftir á Eistlandi (4,7%). Af löndum EES mældist verðbólgan minnst í nágrannalöndum okkar Noregi (0,5%) og Svíþjóð (1,1%), en sé Sviss (-1,0%) hér meðtalið þá er það eina landið sem upplifði ástand verðhjöðnunar í marsmánuði.

Þess má geta að frá því í janúar árið 2006 hefur Ísland verið á toppnum í þessum samanburði í 31 mánuði af þeim 75 mánuðum sem síðan þá eru liðnir, eða sem nemur í rúm 41% tímabilsins,“ segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK