Aukin bjartsýni meðal neytenda

Væntingar landsmanna aukast í takt við hækkandi sól
Væntingar landsmanna aukast í takt við hækkandi sól mbl.is/Eggert Jóhannesson

Væntingavísitala Capacent Gallup hækkaði um 5,6 stig í apríl og mælist nú 71,3 stig en aðeins tvisvar áður frá hruni hefur vísitalan farið yfir 70 stig.

Það var í janúar og febrúar sl. áður en svartsýnin tók öll völd í mars þegar vísitalan lækkaði um 11 stig. Núna er hinsvegar bjartara yfir landanum og er vísitalan nú 15,8 stigum hærri en hún var á sama tíma í fyrra og 51,8 stigum hærri en þegar hún náði botninum í janúar 2009, segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

„Væntingavísitalan hefur sterka fylgni við gengisþróun krónunnar og því þarf ekki að koma á óvart að hún hækki lítillega nú þegar veikingarhrina krónunnar sem staðið hefur yfir síðan um miðjan febrúar hefur stöðvast um stund a.m.k.

Ennþá eru þó fleiri neikvæðir en jákvæðir en þegar væntingavísitalan er undir 100 stigum eru fleiri svarendur neikvæðir en jákvæðir.

Vísitalan fór síðast yfir 100 stig í febrúar 2008. Það eru því komin rúmlega fjögur ár þar sem svartsýnin hefur haft yfirhöndina meðal íslenskra neytenda,“ segir í Morgunkorni.

Allar undirvísitölur væntingavísitölunnar hækka frá fyrri mánuði sem bendir til þess að landinn sé bjartsýnni nú en í síðasta mánuði varðandi mat á atvinnuástandinu og efnahagslífinu hvort sem horft er til nútíðar eða framtíðar.

Mest hækkar matið á atvinnuástandi eða um 6,7 stig frá fyrri mánuði. Væntingar til aðstæðna í efnahags-og atvinnumálum eftir 6 mánuði hækka um 5,5 stig og stendur sú vísitalan nú í 98,4 stigum en í janúar og febrúar sl. náði vísitalan að skríða yfir 100 stig. Mat á núverandi ástandi hækkar um 5,8 stig og mælist nú 30,5 stig og mat á efnahagslífinu hækkar um 2,2 stig og mælist nú 58 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK