Tekur þrjú ár að selja 45 jarðir

Í Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu er rekið stærsta kúabú …
Í Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu er rekið stærsta kúabú landsins. Búið var auglýst til sölu um helgina. Ljósmynd/Sigurður Mar Halldórsson

Landsbankinn reiknar með að það taki um þrjú ár að ljúka sölu á öllum jörðum í eigu jarðafélagsins Lífsvals, en félagið á um 45 jarðir. Bankinn hefur auglýst 20 þeirra til sölu um helgina, m.a. stærsta kúabú landsins.

Lífsval var stofnað árið 2002, en eigendur þess voru nokkrir einstaklingar. Þeirra stærstir voru Ingvar Karlsson, Ólafur Wernersson og Guðmundur Birgisson, kenndur við Núpa.

Eignir metnar á 2,5 - 3,5 milljarða

Félagið keypti á nokkrum árum fjölda jarða um allt land. Þetta eru bæði stórar og litlar jarðir. Á nokkrum er rekinn búskapur en aðrar eru í eyði. Félagið á í dag 45 jarðir. Árið 2010 var verðmæti þeirra og annarra eigna metið í bókhaldi á 5,2 milljarða króna. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum er áætlað verðmæti þeirra í dag á bilinu 2,5 – 3,5 milljarðar.

Framkvæmdastjóri Lífsvals, Jón Björnsson, sagði í samtali við Morgunblaðið árið 2010 að grunnhugmyndin að baki félaginu væri að fjárfesta í landi enda væri það örugg fjárfesting til langs tíma. Jafnframt væri það markmið félagsins að nýta landið m.a. með markvissri uppbyggingu í landbúnaði.

Enginn vafi er á því að land er örugg fjárfesting og ekki eins áhættusöm og t.d. hlutabréf. Vandamál Lífsvals var hins vegar að fjárhagur eigenda félagsins reyndist ekki traustur og eins má setja spurningarmerki við hversu raunhæf markmið félagsins varðandi uppbyggingu í landbúnaði voru. Verðmæti bújarða hækkaði mikið 2004-2007, en lækkaði eftir hrun eins og aðrar eignir.

Síðustu ár hefur sala í bújörðum verið mjög hæg og því augljóst að talsverðan tíma getur tekið að selja 45 jarðir. Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir bankann reikna með að þrjú ár geti tekið að selja allar jarðirnar.

Landsbankinn á 75% í félaginu

Landsbankinn var einn af stofnendum Lífsvals og átti árið 2010 19% hlut í félaginu. Hlutur bankans var þá vistaður hjá Horni, dótturfélagi Landsbankans. Þegar áformað var að setja Horn á markað var ákveðið að færa hlutinn yfir til Landsbankans. Bankinn eignaðist einnig smámsaman stærri hlut í Lífsvali þegar gengið var frá skuldauppgjöri við nokkra af eigendum félagsins. Í dag á Landsbankinn um 75% hlutafjár í Lífsvali, en aðrir hluthafar eru 7.

Lífsval hefur aldrei skilað hagnaði. Meðan uppbygging félagsins stóð yfir var tæplega raunhæft að reikna með rekstrarhagnaði, en eftir hrun brustu allar forsendur og það gat ekki staðið í skilum með lán. Landsbankinn krafðist uppboðs á nokkrum jörðum í eigu Lífsvals í vetur.

Meðal jarða sem Landsbankinn auglýsti til sölu um helgina er Flatey á Mýrum í A-Skaftafellsýslu, en þar er rekið stærsta kúabú landsins. Lífsval á rúmlega milljón lítra mjólkurkvóta, en það er um 1% af öllum mjólkurkvóta landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK