Ný lota að hefjast hjá Oxymap

Starfsmenn Oxymap kynna tækið. Standandi eru Árni Þór Árnason ásamt …
Starfsmenn Oxymap kynna tækið. Standandi eru Árni Þór Árnason ásamt Gísla Halldórssyni verkfræðingi. Sitjandi er dr. James Beach og dr. Þór Eysteinsson sem báðir hafa komið að þróun tækisins.

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Oxymap hefur samið um eða selt þau 16 lækningatæki sem félagið hefur náð að framleiða. Að sögn Árna Þórs Árnasonar, stjórnarformanns félagsins, er undirbúningi lokið fyrir framleiðslu á næstu lotu sem telur 12 tæki. Þetta er verkefni upp á um 30 milljónir króna sem þarf að fjármagna sem fyrst. Félagið hélt aðalfund sinn nýlega og þar kom fram að erlendur fjárfestir hefur sýnt því áhuga en Árni Þór tók fram að of snemmt væri að segja til um hvort af slíku samstarfi yrði. Í dag er fyrirtækið í eigu íslenskra og erlendra aðila og er Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins stærsti hluthafinn.

Hjá Oxymap eru nú sex starfsmenn í fullu starfi; fjórir verkfræðingar og tveir tölvumenn. Fjármálastjóri og framkvæmdastjóri skipta svo með sér einu starfi sem Árni sagði að væri til marks um þá hagsýni sem reynt er að gæta í rekstri félagsins.

„Við vinnum með mörgum öflugum rannsóknarsetrum og við eigum mikla samleið með nokkrum af helstu framleiðendum á sviði augnlæknatækja. Við höfum fundið mikinn áhuga á vörum félagsins en síðan við hófum að þróa tækni okkar hefur áhugi annarra aukist og samkeppni um leið. Við teljum okkur þó hafa nokkurt forskot og enn vera leiðandi á okkar sviði. Það má þó hvergi slaka á,“ sagði Árni Þór.

Mælir súrefnismettun sjónhimnu

Fyrirtækið Oxymap var stofnað til að þróa og markaðssetja rannsóknartæki til mælinga á súrefnismettun í sjónhimnu augans. Brenglun á súrefnisbúskap í sjónhimnu er talin koma við sögu í mörgum algengum og alvarlegum augnsjúkdómum, t.d. sjónhimnusjúkdómi í sykursýki og gláku. Oxymap framleiðir Retinal oximeter sem mælir súrefnismettun og þvermál æða í sjónhimnu. Unnið er að þróun á hugbúnaði súrefnismælisins, að því að tryggja hugverkaréttindi með einkaleyfum, að gæðavottun og almennu markaðsleyfi. Oxymap vinnur með mörgum öflugum rannsóknastofnunum á sviði augnlækninga í heiminum til að sýna fram á notagildi vörunnar. Hugbúnaður Oxymap og súrefnismælirinn passa að sögn Árna Þórs vel inn í vörulínu hjá helstu tækjaframleiðendum á sviði augnlækninga.

„Áhugi á okkar tækjum byggist á því hvað þau geta gert betur og fljótar en fyrirliggjandi tæki og ekki spillti það fyrir ef við gætum sýnt fram á að greiningar okkar á einstaklingum geta komið í veg fyrir alvarlega augnsjúkdóma. Þá verður jafnvel hægt að fá sérstakt númer eða kóða sem hægt er að rukka fyrir við hverja skoðun. Þetta er draumur allra framleiðenda og þýddi mikla sölu í Bandaríkjunum sem er stærsti markaðurinn í dag,“ sagði Árni Þór.

Áætlanir Oxymap gera ráð fyrir meiri sölu og hraðari í framtíðinni en Árni Þór sagði að oft væri tafsamt og seinlegt að selja inn á heilbrigðismarkaðinn. Félagið hefur leigt tæki og hefur nú tvöfaldað leiguverðið en það leigði nokkrum nýjum aðilum tækið á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK