Vandræði á evrusvæðinu tefja losun hafta

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Ómar Óskarsson

Fjármálakreppan á evrusvæðinu og aukin áhættufælni á alþjóðlegum mörkuðum gæti tafið losun gjaldeyrishafta hér á landi. Þetta segir seðlabankastjóri í nýju hefti Fjármálastöðugleika.

Í formála segir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, að gjaldeyrishöftin hafi verið sett á af illri nauðsyn til að stöðva fall krónunnar í framhaldi af bankahruninu og skapa svigrúm fyrir efnahagsstefnuna til að milda samdráttinn og stuðla að efnahagsbata í framhaldinu.

Þau hafi hins vegar neikvæð áhrif áhrif á hagvöxt, meðal annars vegna neikvæðra áhrifa þeirra á virkni og hagkvæmni fjármálakerfisins. Til lengdar gætu þau því gert útlánasöfn bankanna viðkvæmari fyrir áföllum en ella. Þá er líklegt að höftin veiki til lengdar samkeppnishæfni bankanna, því að í skjóli þeirra búa þeir við ódýrari fjármögnun en ella og geta haldið uppi hærri vaxtamun og þjónustugjöldum en hægt væri í opnara umhverfi.

Már segir að losun haftanna muni gera innlenda fjármögnun ríkissjóðs og bankanna dýrari og gæti valdið tímabundnum lausafjársveiflum. Því þurfi eftir föngum að draga úr lánsfjárþörf ríkissjóðs, forfjármagna lánsfjárþörf og lengja lánstíma.

Óstöðugleiki á gjaldeyrismarkaði stór áhættuþáttur

Stærsti áhættuþátturinn lúti hins vegar að óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Umtalsvert gengisfall krónunnar vegna mistaka við losun hafta geti veikt lánasöfn bankanna og komið fram í auknum vanskilum.

„Eftir því sem aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og aðrar forsendur beinnar erlendrar fjárfestingar og annars fjármagnsinnstreymis eru betri, því auðveldara verður að losa höftin án of mikillar áhættu varðandi gengi krónunnar. Góð erlend lausafjárstaða þjóðarbúsins, aðgangur innlendra aðila að erlendu lánsfé og almennt traust á Íslandi leggst á sömu sveif. Því er brýnt að halda áfram að byggja upp traust út á við í aðdraganda almennrar losunar fjármagnshafta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK