Framleiðslan í Perú en hönnunin á Íslandi

Gréta Hlöðversdóttir í peysu úr alpaca frá Perú.
Gréta Hlöðversdóttir í peysu úr alpaca frá Perú.

Fatahönnunarmerkið As We Grow hefur hafið kynningu á haust- og vetrarlínu sinni fyrir árið 2012. Fyrirtækið framleiðir vörur sínar úti í Lima í Perú og hefur þegar gengið frá sölusamningum í Kaupmannahöfn og Berlín. Stefnt er að því að kynna næstu vörulínu félagsins í París í janúar 2013.

Eins og nafnið gefur til kynna þá eru vörurnar framleiddar með það í huga að þær geti vaxið með börnunum og er miðað við aldursskeiðið 6 mánaða til 4 ára. Að sögn Grétu Hlöðversdóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, eru að baki merkinu þrjár mæður sem sáu brýna þörf á því að hanna föt með þessum hætti. Hugmyndin að As We Grow varð í raun til út af peysu sem ferðaðist á milli fjölmargra barna í 9 ár, varð að lokum uppáhaldsflík þeirra allra og er enn í notkun. Hún sagði að hönnunin væri ætluð til að efla þá verðmætaaukningu sem fatnaður getur skapað með því að endast með þessum hætti. Því miði fatnaður As We Grow að því að hver stærð dugi lengur fyrir hvert barn. Þó að líkamshlutar stækki og lengist minnkar notagildi fatnaðarins ekki.

Undirbúningur hófst 2009

Konurnar að baki merkinu eru, auk Grétu, þær María Th. Ólafsdóttir og Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir, og sjá María og Guðrún um hönnunina en þær hafa hönnunarnám að baki. Gréta er hins vegar lögfræðingur og MBA og hefur undanfarið sérhæft sig í frumkvöðlaverkefnum oft tengdum hönnun. María hefur verið aðalhönnuður Latabæjar og Guðrún hefur unnið hjá Steinunni og Karen Millen. Þær fóru af stað með undirbúning og hönnun árið 2009 og eru nú að kynna fyrstu vörulínuna eins og áður segir. Að sögn Grétu hafa þær fjármagnað verkefnið með styrkjum og eigin fé enda ákváðu þær að taka ekki inn fjárfesta strax.

Að sögn Grétu skipti miklu að ná samningum um framleiðslu erlendis og þær séu mjög ánægðar að hafa komist að hjá góðum framleiðanda í Perú sem hefur framleitt fyrir þekkt merki á Vesturlöndum. Notast er við alpaca-ull frá Andesfjöllunum sem heldur hita einstaklega vel. Samningar hafa verið gerðir við söluaðila í Kaupmannahöfn og Berlín en miðað er við að um 90% af fyrstu framleiðslunni seljist hér á landi.

Fatahönnunarmerkið As We Grow hefur hafið kynningu á haust- og vetrarlínu sinni fyrir árið 2012. ,,Ef fyrirtækið á hins vegar að vaxa og dafna verður það að gerast erlendis," sagði Gréta. Gert er ráð fyrir að þarnæsta vörulína félagsins verði seld í New York.

Vantar tæknibúnað hér

Ástæðan fyrir því að vörurnar eru ekki framleiddar á Íslandi, þó við gjarnan vildum, er sú að það er ekki til hér sá tækjabúnaður sem þarf til þess að móta snið með prjóni," sagði Gréta.

Sem dæmi um hvernig fötin stækka með barninu er tekið dæmi um hönnun á peysu. Við hönnun peysunnar er handvegur hafður dýpri, ermarnar hafðar eilítið lengri og stroff við hendur sem ekki þrengir að. Með þessu segja hönnuðirnir að stærð númer 1 geti gengið fyrir börn frá 6 mánaða aldri til 18 mánaða aldurs.

Við hönnun buxnanna er notuð stillanleg teygja í mittið og skálmaopin hönnuð þannig að þau séu víðari. Með þessum hætti er hægt að nota buxurnar sem síðbuxur til að byrja með en síðar sem kvartbuxur.

As We Grow. Úr vörulínu félagsins.
As We Grow. Úr vörulínu félagsins. Ljósmyndari Vigfús Birgisson.
As We Grow. Úr vörulínu félagsins.
As We Grow. Úr vörulínu félagsins. Ljósmyndari Vigfús Birgisson.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK