Mikil aukning í erlendri kortaveltu

mbl.is/ÞÖK

Bakslag varð í kortaveltu landsmanna í maímánuði samkvæmt tölum Seðlabankans um greiðslumiðlun sem birtar voru í gær. Þannig dróst kortavelta einstaklinga innanlands saman um 1,5% að raungildi borið saman við maí í fyrra og er þetta í fyrsta sinn síðan haustið 2010 sem samdráttur hefur orðið í kortaveltu á milli ára á þennan mælikvarða. 

Í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka segir að kortavelta einstaklinga innanlands gefi mjög góða vísbendingu um þróun einkaneyslu sem vegur um helming landsframleiðslunnar. Þannig jókst  kortavelta einstaklinga innanlands um 4,2% á fyrsta ársfjórðungi frá sama fjórðung fyrra árs sem var nákvæmlega sama aukning og varð í þróun einkaneyslu á sama tímabili samkvæmt þjóðhagsreikningum sem birtir voru fyrr í þessum mánuði.

 Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans er útlit fyrir að vöxturinn verði ekki jafnmikill á öðrum ársfjórðungi nema að til verulegrar aukningar komi í júní en þegar mið er tekið af apríl- og maímánuði þessa árs hefur kortavelta aukist um 1,9% frá sama tímabili fyrra árs.

Fyrstu fimm mánuði ársins hefur kortaveltan aukist um 3,2% að raungildi frá sama tímabili fyrra árs sem er í takti við spá Seðlabankans um þróun einkaneyslu en í spá bankans sem birt var um miðjan síðasta mánuð er gert ráð fyrir að einkaneyslan muni aukast um 3,2% á þessu ári, segir í Morgunkorninu.

Gríðarleg aukning í erlendri kortaveltu

 Umtalsverður vöxtur varð  hins vegar í kortaveltu Íslendinga erlendis í maímánuði. Veltan á erlendri grundu jókst um 10,4% að raungildi frá sama tímabili fyrra árs. Fyrstu fimm mánuði ársins hefur kortavelta landans á erlendri grundu aukist um 8,3% að raungildi frá sama tímabili fyrra árs en á sama tíma hefur brottförum Íslendinga um Leifsstöð fjölgað um 5%. Af þessu má sjá að Íslendingar eyða að jafnaði meira í utanlandsferðum sínum nú en á síðasta ári, segir Greining Íslandsbanka.

Útlendingar með kortin á lofti

Mikil aukning varð einnig í kortaveltu útlendinga hér á landi í maí en aukningin nemur 10,9% að raungildi á milli ára. Fyrstu fimm mánuði ársins hefur velta erlendra korta hér á landi aukist um 9% að raungildi frá sama tímabili fyrra árs og er það mun minni aukning en sem nemur aukningu í komum erlendra ferðamanna á sama tímabili en fyrstu fimm mánuði ársins hefur erlendum ferðamönnum fjölgað um 20% frá sama tímabili fyrra árs. Vissulega segir kortanotkun ferðamanna ekki alla söguna, en auk korta geta þeir komið með ferðaávísanir eða reiðufé. Engu að síður er það athyglisvert að úttektir korta skuli ekki aukast meira en raun ber vitni með þessari miklu aukningu ferðamanna, segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK