Vildu kaupa fyrir 10,3 milljarða

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Umframeftirspurn var eftir hlutabréfum í fasteignafélaginu Regin hf., dótturfélagi eignarhaldsfélags Landsbankans, í almennu hlutafjárútboði sem lauk í gær.

Í útboðinu bauð Landsbankinn allt að 975 milljónir hluta í Regin til sölu, eða sem nemur 75% hlutafjár í félaginu. Heildareftirspurn í útboðinu nam 10,3 milljörðum króna. Heildarsöluverðmæti útboðsins var 7.895 milljónir króna.

Tekið var tilboðum í 963 milljónir hluta en Eignarhaldsfélag Landsbankans ehf. ákvað að halda eftir rúmlega 12 milljónum hluta í Regin til þess að selja til viðskiptavaka. Við skráningu mun eignarhaldsfélag Landsbankans eiga 25% hlut í Regin.

Selt á genginu 8,2 krónur

Útboðsgengi hefur verið ákveðið 8,2 krónur á hlut. Allir sem buðu verð á eða yfir útboðsgengi og tilgreindu hámarksverð á eða yfir útboðsgengi fá úthlutaða hluti. Tilboðum undir útboðsgengi var hafnað.

Hluthafar í Regin verða tæplega eitt þúsund og að frátöldu eignarhaldsfélagi Landsbankans ehf., sem á 25% hlut í félaginu, eiga allir hluthafar minna en 10% hlut hver, samkvæmt tilkynningu.

Í áskriftarhluta útboðsins, þar sem áskriftir voru frá 100.000 krónum til 49.999.999 króna, fá fjárfestar áskriftir sínar óskertar en áskriftir í tilboðsbók, sem hver og ein var að lágmarki 50 milljónir króna, voru skertar hlutfallslega að teknu tilliti til heildarfjárhæðar tilboðs og tilboðsgengis.

Þeir fjárfestar sem buðu hæst fá áskriftir sínar óskertar en þeir sem lögðu fram tilboð á útboðsgengi sæta 13% skerðingu. Skerðing annarra fjárfesta var hlutfallsleg á bilinu 0-13%.

Fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf Regins í Kauphöllinni er áætlaður 2. júlí.

Reginn er eitt stærsta fasteignafélag landsins og á auk Smáralindar og Egilshallar 27 fasteignir á höfuðborgarsvæðinu sem rýma atvinnustarfsemi af ýmsu tagi. Alls eru fasteignir í eigu Regins um 153 þúsund fermetrar eða sem nemur 3% af heildarfermetrafjölda atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK