Þýskaland tilbúið í evruskuldabréf?

Wolfgang Schäuble
Wolfgang Schäuble AP

Þýskaland gæti verið nær því en áður hefur verið haldið að koma til móts við óskir leiðtoga annarra Evrópuríkja um útgáfu evruskuldabréfa og sameiginlega ábyrgð evruríkja á skuldum.

Áður hefur Angela Merkel kanslari Þýskalands sagt að slík bréf verði ekki gefin út meðan hún lifi. Það sé þó háð því að samþykkt verði stefna um að ríkin gefi eftir fullnaðarvald með fjárlagagerð og að ráð á vegum Evrópusambandsins hafi vald til breytinga þegar ljóst þykir að aðildarríki fari út fyrir reglur sambandsins um útgjöld og skuldir. Þetta segir Wolfgang Schäuble fjármálaráðherra Þýskalands í viðtali við bandaríska blaðið Wall Street Journal.

Schäuble segir að þegar Þýskaland sé orðið fullvisst um að aðildarríkin taki óafturkræfa ákvörðun um að stofna ráð sem hefði heimild yfir fjárlagagerð einstakra ríkja væri Þýskaland tilbúið að hefja þátttöku í evruskuldabréfum. Hann tók jafnframt fram að það gæti verið áður en gerðar hefðu verið breytingar á Evrópusambandssáttmálanum sem margir þýskir stjórnmálamenn telja forsendu fyrir útgáfunni. Slíkt ferli gæti tekið nokkur ár og því má segja að um mikilvæga tilkynningu sé að ræða hjá fjármálaráðherranum.

Í dag hófst fundur leiðtoga evruríkjanna og hafa leiðtogar Spánar, Ítalíu, Frakklands og Grikklands ýtt mjög á leiðtoga Þýskalands um að slaka á kröfum sem áður höfðu verið settar fram varðandi fjárhagsaðstoð milli evruríkja. Með þessum ummælum virðast Þjóðverjar vera að gefa aðeins eftir af kröfum sínum. Ekki er þó búist við neinum lokaniðurstöðum á fundinum en þetta gefur fyrirheit um þá stefnu sem fundurinn gæti tekið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK