Vefur sem auðveldar útleigu á sumarbústöðum

Haukur Guðjónsson framkvæmdastjóri Búngaló.
Haukur Guðjónsson framkvæmdastjóri Búngaló.

Sumarbústaðavefurinn Búngaló hefur náð nokkuð góðri stöðu á íslenska sumarbústaðamarkaðnum en þeir eru nú með á annað hundrað sumarbústaði á skrá að sögn Hauks Guðjónssonar sem stofnaði vefinn fyrir tveimur árum. Búngaló er markaðstorg fyrir sumarbústaðareigendur til þess að leigja út bústaði sína til einstaklinga. Nú er verið skoða möguleika á að setja upp kerfið erlendis.

„Kerfið, sem búið er að þróa til að halda utan um sumarbústaðina, er nokkuð sérstakt hér á landi og stefnt er að því að útvíkka hugmyndina yfir á önnur lönd á komandi árum. Við höfum náð að skapa góðar tekjur fyrir íslenskar fjölskyldur sem eiga þessa bústaði og á sama tíma búið til auðvelda leið fyrir erlenda ferðamenn til að leigja hefðbundna íslenska sumarbústaði og fá þannig tækifæri til að kynnast bæði menningu og náttúru Íslands betur,“ sagði Haukur.

Fundu engan bústað

Hugmyndin að verkefninu kviknaði upphaflega sumarið 2009 þegar Haukur og meðstofnandi hans vorum báðir í fríi á sama tíma og ætluðu að skella sér í sumarbústað.

„Við eyddum heilum degi í að vafra á netinu, skoða í gegnum smáauglýsingar og hringja í alla sem við þekktum en í lok dagsins höfðum við ekki fundið neinn bústað til að leigja. Okkur fannst þetta nokkuð sérstakt sérstaklega miðað við að það eru 12.000 sumarbústaðir á Íslandi og því undarlegt að geta ekki fundið einn bústað til að leigja. Við settumst því niður yfir kaffibolla og byrjuðum að velta fyrir okkur hvort það væri nú ekki hægt að gera fólki auðveldara fyrir,“ sagði Haukur.

Hann segir að til að byrja með hafi þetta verið vangaveltur en smám saman hafi færst meiri alvara í málið enda sáu þeir strax að talsverð þörf var fyrir slíka þjónustu. Upphaflega hugmyndin var einfaldlega sú að búa til gagnagrunn á netinu þar sem væri listi yfir bústaði til að skrá, það þróaðist svo út í að verða bókunarkerfi fyrir sumarbústaði.

„Sjálfur var ég í námi að læra viðskiptafræði á þessum tíma og meðstofnandi minn var að læra grafíska hönnun. Það eina sem vantaði í hópinn var forritari en slíkt var alltof dýrt þar sem við vorum báðir með tóma vasa á þessum tíma. Ég útvegaði mér þá himinháan stafla af forritunarbókum og á 3-4 mánuðum lærði ég að forrita. Þannig náðum við að koma fyrirtækinu af stað með litlum tilkostnaði. Vefurinn var formlega opnaður í mars 2010.“

Hugmyndin tekur breytingum

Haukur segir að þeir hafi fljótt gert sér grein fyrir því að þó að upphaflega hugmyndin hafi verið sú að auðvelda fólki að finna sumarhús til að leiga þá var annar kostur við kerfið sem þeir fóru fljótlega að leggja meiri áherslu á. Sá kostur var að íslenskar fjölskyldur, sem áttu sumarbústaði, gátu nú leigt þá út á mjög auðveldan hátt og með litlum tilkostnaði. Búngaló sá um að markaðssetja bústaðina fyrir fjölskyldurnar, taka við greiðslum, auka öryggi og margt fleira. Haukur segir að í góðærinu hafi margar fjölskyldur fjárfest í sumarhúsum sem höfðu svo orðið íþyngjandi kostnaðarliður eftir hrunið. Með því að leigja bústaðina út gátu þessar fjölskyldur staðið undir öllum kostnaði af bústöðunum og meira að segja í mörgum tilfellum fengið góðar tekjur.

Kostnaður í lágmarki

Hjá Búngaló starfa tveir í fullu starfi í dag en við það bætast svo nokkrir verktakar og þjónustuaðilar sem sjá um ýmsa hluti fyrir þá. Reksturinn er sjálfbær í dag og Haukur á fyrirtækið að öllu leyti en hann hefur kosið að fá ekki neina fjárfesta í lið með sér. Allt frá upphafi hefur Haukur lagt mikið upp úr því að fara nægjusömu leiðina og halda öllum kostnaði í lágmarki til að koma í veg fyrir að fyrirtækið þurfi að leggjast í skuld. Þess má geta að Búngaló komst í topp 10 úrslit Gulleggsins 2010 og árið á eftir hlutu þeir styrk frá Tækniþróunarsjóði til að þróa hugmyndina áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK