Hitahlífar úr íslenskri ull gegn bólgum og verkjum

Steinunn Ketilsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Volcano Iceland.
Steinunn Ketilsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Volcano Iceland.

Við þekkjum mörg hvernig það er að þjást af verkjum og bólgum í liðum eða vöðvum og þær hömlur sem skert hreyfigeta getur haft á okkar daglega líf. Frumkvöðlafyrirtækið Volcano Iceland hefur um þriggja ára skeið unnið að þróun á hitahlífum til að minnka verki, bólgur og stífleika undir vörumerkinu Volcano Warmers.

Í upphafi voru vörurnar þróaðar fyrir einstaklinga sem þjást af gigt til að auðvelda þeim að auka hreyfigetu sína með því að minnka verki og bólgur í liðum. „Á þessu ári prófuðum við hitahlífarnar á einstaklingum sem hafa aðra áverka, svo sem íþróttameiðsl. Fljótlega kom í ljós að hitahlífarnar hafa sömu virkni. Við sáum að margir náðu skjótari bata frá eymslum til að auka hreyfigetu aftur eða bara gátu stundað sínar hreyfingar með notkun á hitahlífunum hvort sem er að hlaupa, ganga, hjóla, sofa eða bara að geta klætt sig í sokkana sjálfir,“ segir Steinunn Ketilsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Volcano Iceland.

Fyrsta útgáfa af fimm tegundum er að fara á markað í næstu viku. Það eru hlífar fyrir hné, ökkla, kálfa/leggi, úlnliði og hendur og verða til sölu hjá Lyfju í Lágmúla og Afreksvörum í Glæsibæ. Að sögn Steinunnar er stefnt að því að bjóða vörur fyrirtækisins á fleiri stöðum innan skamms. Fleiri tegundir eru í þróun og munu koma á markað á næsta ári auk þess sem félagið hyggst setja upp starfsemi erlendis þar sem ný tækifæri eru að opnast í Norður-Ameríku. Hitahlífarnar hafa verið prófaðir á einstaklingum með ýmsa áverka og á einstaklingum sem þjást af gigt í samvinnu við Gigtarfélag Íslands og helstu niðurstöður sýna að hitahlífarnar hafa margvísleg jákvæð áhrif að sögn Steinunnar.

Hitahlíf á sambýlismanninn upphafið

Steinunn er með M.Sc í viðskiptafræði, árangursstjórnun frá Viðskiptaháskólanum í Árósum í Danmörku síðan 2005. Hún vann lokaritgerð með Hafnarfjarðarbæ um árangursstjórnun og eftir útskrift sem stjórnunarráðgjafi hjá Intellecta. Síðar starfaði hún sem mannauðsstjóri hjá HRV Engineering og hún grípur enn í verkefni hjá Intellecta samhliða rekstri Volcano Iceland. Einnig er hún í stjórn frumkvöðlasamtakanna kvenna KVENN. Eftir hrunið vildi Steinunn breyta til. „Ég var að vesenast í alls konar sköpun og handprjónaði meðal annars hitahlíf á sambýlismann minn sem er með slæmt hné vegna slyss sem hann lenti í fyrir mörgum árum en hann hefur prófað ýmsar hlífar til að auðvelda hreyfingar. Íslenska ullin er náttúrlega einstök og eiginleikar hennar við að grípa og viðhalda jöfnum hita eru sérstakir. Hitahlífarnar virkuðu það vel að við fórum af stað að framkvæma verkið,“ sagði Steinunn.

Ráðist var í að stofna fyrirtæki sem hannar og framleiðir hitahlífar úr íslenskri ull sem eru fóðraðar úr hágæðaflísefni. Saman vinna þessi efni ótrúlega vel saman við að viðhalda jöfnum hita á aumum svæði líkamans og hlífarnar eru þægilegar í notkun. Nafnið Volcano Iceland vísar til sérstöðu íslensku ulllarinnar á eldfjallaeyjunni Íslandi sem var stofnað árið 2009, áður en eldgos tóku við frægðinni. Steinunn segir engum vafa undirorpið að íslenska ullin er einstök sem skýrist að hluta til af því að íslenski sauðfjárstofninn hefur verið einangraður frá öðrum tegundum og lífað af harðneskjuna í gegnum aldirnar hér á eyjunni og einnig haldið lífi í Íslendingum í gegnum árin.

Mikilvægt fyrir sprotafyrirtæki að fá viðurkenningu

Steinunn segir að þetta hafi allt tekið sinn tíma. Hún hefði þurft að læra að sauma eftir að hafa fjárfest í iðnaðarvélum en hún kunni áður lítið sem ekkert á snið eða annað sem saumaskapnum fylgir. „Við settumst bara niður og prófuðum. Samhliða þróuninni var farið að hanna tískuvörur sem eru undir nafninu Volcano Fashion í dag og það ferli var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt,“ segir Steinunn. „Við settum upp vinnustofu í Borgartúni í eitt ár en tókum síðan beina stefnu á hitahlífarnar í janúar 2011 þar sem erfitt er að vera í mörgum verkefnum í einu. Prófun á virkni hitahlífanna staðfesti hvað við erum með góða vöru í höndunum, þannig að við gátum farið af stað af meiri staðfestu.“

Steinunn segir að ákveðið hafi verið að fara á sýningar og kynna hitahlífarnar. Viðbrögðin voru hvetjandi og vörurnar fengu tilnefningar og síðar viðurkenningu frá EUWIIN ásamt bronsverðlaunum frá frumkvöðlasamtökum í Svíþjóð og að lokum styrk frá Impru og Landsbankanum. „Viðurkenningar eru mikilvægar í svona sprotaferli og reyndist góður undirbúningur fyrir okkur til að kynna vörurnar haustið 2011 á stærstu heilbrigðissýningu í heimi, sem haldin er árlega í Medica í Þýskalandi. Þar koma dreifingaraðilar alls staðar að úr heiminum að skoða úrval af vörum í heilbrigðisgeiranum og við urðum vör við mikinn áhuga á að notast við náttúrulegt hráefni til að ná þessari virkni. Markmið Volcano Warmers er að auka hreyfigetu einstaklinga sem þjást af bólgum og verkjum í liðum eða vöðvum og auðvelda fólki að uppfylla drauma sína, meðal annars af því að hreyfigeta er svo stór hluti af okkar daglega lífi.“

Starfsmaður inn í vor og Norður-Ameríka á næsta ári

Steinunn er eigandi fyrirtækisins og hefur ekki verið með neina fjárfesta á bak við sig. Sambýlismaður hennar, Snorri Arnar Þórisson, hefur tekið virkan þátt í öllu ferlinu. Í vor fengu þau starfsmann, Sigurð Hrafn Þorkelsson, sem er með mikla reynslu í grafískri hönnun og með M.Sc gráðu í upplýsingatækni, hönnun samskipta og miðla. Sigurður sér um allt markaðsefni og hefur eignast hlut í fyrirtækinu. „Frá því að Sigurður kom inn í ferlið höfum við tekið góðan snúning með markaðsmálin og umbúðir nýkomnar úr prentun og uppfærsla á heimasíðu og öðru markaðsefni á fullri ferð. Við erum svo miklu betur undirbúin í dag en fyrir ári þar sem notendur hafa verið mun fleiri og breiðari og endurgjöfin meiri, sem er svo mikilvægt í þessu ferli til að skilja virkni vörunnar,“ segir Steinunn. Fyrirtækið er í dag að slíta barnsskónum og fara á næsta stig. „Við munum taka aftur þátt á heilbrigðissýningunni Medica í haust og stefnum á stóra samninga við dreifingaraðila fyrir 2013. Á síðustu sýningu hittum við marga mikilvæga tengiliði og meðal annars tengslafyrirtækið HREDA í Hampton Roads í Virginíu í Bandaríkjunum. Þeir buðu okkur í heimsókn til að skoða möguleika að setja upp framleiðslu, dreifingu og sölu í Norður-Ameríku,“ að sögn Steinunnar.

Steinunn og sambýlismaður hennar fóru til þeirra í heimsókn núna í vor þar sem þau fengu mótttökur sem voru framar vonum. „Þau sýndu vörunum mikinn áhuga þar sem þau sáu mörg tækifæri fyrir þessa vöru á Bandaríkjamarkaði. Hittum þar lögfræðing, bankastjóra og endurskoðendur varðandi stofnun fyrirtækis. Tækifærin þar eru gríðarleg og markaðurinn er þúsund sinnum stærri en Ísland. Við fengum mikilvæga tengiliði og upplýsingar þar, heimsóttum meðal annars saumastofu til að kynna okkur hvernig er að reka fyrirtæki í Bandaríkjunum. Ferlið er komið í gang til að setja upp framleiðslu í Virginíu og opna markaðinn en það eina sem okkur vantar í dag er fjármagn til að framkvæma verkefnið,“ sagði Steinunn. Ekki er hægt að segja annað en að spennandi tímar séu framundan hjá félaginu.

Nánari upplýsingar fást á heimasíðunni  www.volcano-iceland.com

Hhnéhlífar af þeirri gerð sem Volcano Warmers býður uppá.
Hhnéhlífar af þeirri gerð sem Volcano Warmers býður uppá.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK