„Ísland verður aldrei ódýrt“

Landmannalaugar er einn þeirra staða á landinu sem eru orðinn …
Landmannalaugar er einn þeirra staða á landinu sem eru orðinn mjög vinsæll hjá ferðamönnum. mbl.is/Rax

„Við þurfum að velja þá staði sem eiga að vera aðgengilegir öllum allt árið um kring. Við þurfum að gera þá þannig úr garði að þeir anni mikilli umferð í staðinn fyrir að dreifa umferðinni stefnulaust,“ segir Elín Sigurveig Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Íslenskra fjallaleiðsögumanna. Hún telur að mikil sérhæfing í ferðaþjónustu sé af hinu góða og muni skila meiri tekjum. Í samtali við mbl.is fór Elín yfir þróun fyrirtækisins og sína sýn á ferðaþjónustu hérlendis.

Mikilvægi sérhæfingar í ferðaþjónustu

Í gær var haldinn fundur af því tilefni að 10 ár voru liðin frá útskrift fyrstu nemenda úr MBA-námi frá viðskiptadeild Háskóla Íslands. Málefni fundarins var „Mikilvægi sérhæfingar í ferðaþjónustu og hvaða þýðingu vaxtarbroddar í sérhæfðri starfsemi hafa fyrir ferðaþjónustuna í heild“. Elín var ein þeirra sem fluttu erindi og talaði um mikilvægi þess að bjóða upp á framúrskarandi vöru og þjónustu með því að sérhæfa sig og geta þannig fengið hærri framlegð.

Fyrirtækið Íslenskir fjallaleiðsögumenn var stofnað 1994 og hóf strax að bjóða upp á bakpokaferðir og jöklagöngur í kringum Skaftafell. Fyrsti og stærsti viðskiptavinur félagsins var frönsk ferðaskrifstofa og síðan þá hefur fyrirtækið öðlast mikla reynslu og þekkingu á því að þjónusta þá. Segir Elín að það að þekkja venjur og menningu viðskiptavinanna geti skipt heilmiklu máli og nefnir í því samhengi að þegar byrjað var að þjónusta breska og ameríska ferðamenn hafi þau ætlað að nota sama matseðil fyrir þá og notaður var fyrir frönsku ferðamennina. Allir gæðaostarnir sem voru vinsælir í fyrri ferðum féllu ekki í kramið hjá bresku viðskiptavinunum og komu allir til baka með athugasemdum um furðulegt ferðanesti. 

Aukið öryggi og staðlaðar ferðir

Í kjölfar þess að ferðamönnum hafi fjölgað mikið hafi orðið stigvaxandi nauðsyn þess að samhæfa framkvæmdir og auka öryggi í ferðum. Hún viðurkennir að farið hafi verið of geyst af stað í upphafi. „Við höfðum ekki hugmynd um hvað við vorum að gera fyrstu árin. Fórum of bratt og of hratt.“ Þetta hafi aftur á móti verið tekið föstum tökum og öryggismál og þjálfun sett í forgang. Á síðasta áratug hafi þannig byggst upp mikil þekking og reynsla hjá fyrirtækinu eftir að hafa fengið erlenda leiðbeinendur hingað til lands.

Elín segir að í dag hafi fyrirtækið byggt upp staðlaðar ferðir, sem sé nauðsynlegt í þessum geira. Hún leggur þó áherslu á að þó hugmyndin um staðlaða vöru hljómi óspennandi þurfi hún alls ekki að vera það. Þegar verið er að afgreiða mörg þúsund einstaklinga í svona ferðir skipti öryggið höfuðmáli og ef ekki sé farið eftir ákveðnum atriðum gangi þetta ekki upp til lengdar. „Stöðlunin gengur út á öryggi farþega og að þeir fái hámarks upplifun. Upplifun þeirra er mun sterkari en okkar og þó hún virki ekki eins brjálæðislega spennandi fyrir fólk sem lifir í þessum geira, þá er viðskiptavinurinn að leita að öruggri en ævintýralegri upplifun og hann fær sitt adrenalínkikk út úr þessum ferðum.“

„Ísland verður aldrei ódýrt“

Aðspurð hvaða lönd hún sjái sem mestu vaxtarsprotana í ævintýraferðum eins og þau bjóða upp á bendir Elín á Ameríku. „Á síðustu misserum hefur Ameríkumarkaðurinn verið að koma sterkur inn og farið vaxandi, en síðan þurfum við að horfa betur til fjarmarkaðanna, sem við höfum ekki gert hingað til“ og á þar t.d. við Asíumarkaðinn, Brasilíu og Mexíkó. Hún telur þó sérhæfingu fyrir ákveðin markaðssvæði, eins og þau hafi gert með Frakkland, mikilvæga og nauðsynlega til að halda uppi ákveðnum gæðum sem auka verðmæti ferðanna.

Þegar komið er að spurningunni um fjölda ferðamanna og hvort Ísland eigi að stefna frekar að efnaðri ferðamönnum segir Elín þetta ekki vera einfalt mál. „Við þurfum að vanda okkur, en ég tel nauðsynlegt að horfa á gæði og fagmennsku. Ísland verður aldrei ódýrt og við erum ekki að ná til hópsins sem hefur allra minnst milli handanna.“ Hægt sé að hækka verð á ferðum með aukinni þekkingu og meiri gæðum sem leiði til þess að efnaðri einstaklingar komi hingað frekar.

Vill ekki dreifa umferðinni stefnulaust

Elín telur aftur á móti ekki að ferðamannafjöldi hérlendis sé orðinn of mikill. „Ég tel að við eigum að stefna á fjölgun ferðamanna, en við eigum ekki að gera það hratt og við eigum ekki að setja markið á milljón ferðamenn eftir þrjú ár. Við eigum að fara okkur hægt og byggja upp innviði. Ef við förum of hratt, þá náum við ekki að anna því þannig að vel sé og þá hrynur orðsporið og þá erum við búin að missa þennan velborgandi markað frá okkur.“

Mikil umferð hefur verið á mörg ferðamannasvæði hérlendis síðustu árin og margir hafa talað um að fara þurfi í róttækar breytingar á svæðum, jafnvel loka þeim og passa upp á ágang ferðamanna á hálendinu og við vinsælustu staðina. Elín segir að það þurfi að velja ákveðna staði sem verði vinsælir ferðamannastaðir. „Við þurfum að gera þá staði þannig úr garði að þeir anni mikilli umferð í staðinn fyrir að dreifa umferðinni stefnulaust. Þessa staði á að byggja upp og þeir þurfa að geta annað mikilli umferð allt árið.“ Elín vill aftur á móti að aðrir staðir fái að vera villtir og ósnortnir þannig að hægt sé að njóta óbyggðanna. Hún tekur þó fram að vissir staðir geti jafnvel verið það viðkvæmir að nauðsyn sé að takmarka fjölda ferðamanna, en það sé þó ekki slæmt í sjálfu sér og hafa vinsældir slíkra staða erlendis t.d. oft aukist þegar takmörkunum hefur verið komið á.

Elín telur að passa verði að staðir haldi enn áhrifamætti …
Elín telur að passa verði að staðir haldi enn áhrifamætti sínum sem ósnortnir, en velja þurfi ákveðna staði og byggja upp sem ferðamannastaði. Elín Sigurðardóttir
Ferðamenn streyma í bílförmum á suma staði eins og til …
Ferðamenn streyma í bílförmum á suma staði eins og til Geysis í Haukadal. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK