Hækkun gerir hótel órekstrarhæf

Hækkun á virðisaukaskatti mun leiða til lægri tekna til ríkissjóðs …
Hækkun á virðisaukaskatti mun leiða til lægri tekna til ríkissjóðs og ganga að mörgum hótelum dauðum. mbl.is/Golli

Breyting á virðisaukaskatti á gistiþjónustuaðila getur haft neikvæð áhrif á innkomu virðisauka upp á allt að 2,2 milljörðum. Auk þess myndi ferðamönnum fækka og þjóðhagslegar tekjur vegna dvalar þeirra minnka töluvert. Þetta er niðurstaða könnunar sem KMPG lét gera vegna áætlana stjórnvalda að færa virðisaukaskatt sem lagður er á hótel- og gistiþjónustu í efra þrep skattsins. Könnunin sýndi einnig að nú þegar eru hótelrekendur við þolmörk í rekstri og að ekki megi mikið út af bregða til þess að framlegð verði neikvæð og reksturinn því ósjálfbær.

Í könnuninni voru skoðuð 35 hótel sem telja fyrir um 85% af heildarveltu í hótelgeiranum og skiptust þau nokkuð jafnt milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Gisting, veitingar og aðrar tekjur hótela voru skoðaðar, en stoppað var við rekstrarhagnað og því ekki tekið tillit til afborgana af lánum, heldur eingöngu á rekstrartekjur og rekstrargjöld. Ekki var tekið mið af afleiddum tekjum þjóðfélagsins vegna þjónustuaðila hótelanna, ef undan eru skilin fasteignafélög sem leigja rekstraraðilum hótelbyggingar.

Lítil framlegð í hótel- og gistiþjónustu

Á kynningarfundi um niðurstöðurnar sagði Alexander G. Eðvardssonsviðsstjóri skattasviðs KPMG, að sláandi hefði verið að sjá hversu lítil framlegð væri í þessum geira. Í heildina er hún 5,9%, en aðeins 2,6% á höfuðborgarsvæðinu og 16,9% á landsbyggðinni. Sagði hann að þennan mun mætti væntanlega rekja til hærri rekstrarkostnaðar og samkeppni á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem óskráð gistiþjónusta væri nokkuð algeng þar. Endurnýjun hefði einnig verið nokkuð mikil í höfuðborginni og því gæti verið lægra nýtingarhlutfall til skemmri tíma vegna framkvæmda.

Út frá því úrtaki sem KPMG hafði telja þeir að heildargreiðslur virðisaukaskatts til ríkisins í hótelgeiranum séu um 1050 milljónir á ári. Með breytingum á skattprósentu á hótel- og gistiþjónustu úr 7% upp í 25,5% hækkar sú tala um rúmlega 1100 milljónir á ári eftir því hvaða forsendur eru gefnar. 

Fækkun ferðamanna

Með hækkuninni er gert ráð fyrir að ferðamönnum fækki um 40 þúsund á ári, en það er bæði tala sem Icelandair hefur sagt að líklegt sé að ferðamönnum muni fækka um og sem passar við þá verðteygni sem KPMG telur líklega að sé í þessum rekstri. Spá þeir að teygnin sé um 0,49, sem þýðir að fyrir hvert prósentustig sem verð hækkar fækkar ferðamönnum um 0,49%. Segir Alexander að þetta séu varlega áætlaðar tölur miðað við það sem gert sé ráð fyrir erlendis. 

Tekjur og virðisauki tapast

Í úttek um áhrif sem þessar breytingar hefðu kemur í ljós fækkun ferðamanna og hlutfallslegur samdráttur í neyslu myndi draga úr innkomu vegna ferðamanna um allt að 28 milljarða á ári og að virðisaukaskattsrýrnun vegna þess væri um 3,4 milljarðar. Þegar aukningin vegna hærri skatts á hótel- og gistiþjónustunnar er tekin með er þetta því lækkuð innkoma á virðisaukaskatti uppá rúmlega 2,2 milljarða á ári. 

Þjóðhagsleg áhrif hækkunarinnar eru að mati Alexanders svo töluvert meiri, enda tekur úttektin ekki til þriðju aðila sem t.d. þjónusta hótelin og afleiddrar starfsemi. Auk þess myndi fækkun ferðamanna gera stöðu hótela verri sem væntanlega hefði bein áhrif á stöðu þeirra fasteignafélaga sem ættu hótelbyggingarnar með lækkun markaðsverðs og lánardrottna þeirra. Sagði hann ekkert svigrúm til að takast á við þessa virðisaukahækkun og að aðalatriðið væri að horfa á heildarmyndina til að sjá hvert slík hækkun myndi leiða. Þessi hækkun myndi bæði lækka tekjur ríkissjóðs og gera hótel á höfuðborgarsvæðinu órekstrarhæf og gera hótelum á landsbyggðinni erfitt fyrir.

Hækkun skatts á hótel- og gistiþjónustu mun draga úr fjölda …
Hækkun skatts á hótel- og gistiþjónustu mun draga úr fjölda ferðamanna að sögn KPMG Morgunblaðið/RAX
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK