Toppaverð fyrir raforku til Evrópu

Rafmagnslínur
Rafmagnslínur Árni Sæberg

Regluverk í Evrópu um flutning á rafmagni er eins og hannað fyrir Íslendinga til að koma með græna orku inn á Evrópumarkaðinn. Íslendingar eiga möguleika á að fá toppaverð fyrir orkuna, líkt og Norðmenn sem selja orku til meginlandsins með sæstreng.

Þetta segir Haukur Eggertsson, iðnaðarverkfræðingur, sem hélt fyrirlestur í síðustu viku um líkleg áhrif sæstrengs á raforkuverð hérlendis til skemmri og lengri tíma. Hann kom auk þess inn á ýmsa möguleika og spurningar tengdar sæstreng til Íslands. Í samtali við mbl.is sagði Haukur nauðsynlegt að setja lög um lagningu sæstrengs og benti á möguleika fyrir Ísland til að selja raforku á svokölluðu toppaverði til Evrópu.

Græn hraðbraut til Evrópu

Regluverk í Evrópu sem viðkemur flutningi á rafmagni er eins og hannað fyrir Íslendinga til að koma með græna orku inn á Evrópumarkaðinn, segir Haukur, en fyrir hendi eru tilskipanir sem tilgreina að græn orka eigi að hafa fullan forgang umfram orku sem til dæmis er unnin úr kolum og gasi. Segir Haukur þetta mikilvægt ætli Íslendingar sér inn á Evrópumarkaðinn, þar sem stysta leiðin sé til Bretlands. Á milli Englands og Skotlands sé aftur á móti flutningsnet sem sé að miklu leyti fullnýtt nú þegar. Telur hann að með reglugerðinni sé Íslendingum hleypt fremst í röðina ef til komi og flytja þurfi íslenskt rafmagn inn á kerfið.

Áður en þetta er skoðað er þó mikilvægast að mati Hauks að skoða reglur og lög sem tengjast því hvort og einnig hver geti lagt sæstreng. Segir hann að lagaleg óvissa stoppi fyrirtæki í að setja fjárhæðir í rannsóknarstarf um hvort sæstrengur sé mögulegur eða ekki. Hann tekur þó fram að í erindi sínu hafi hann ekki horft til tæknilegra atriða við lagningu strengsins né umhverfisáhrifa og þess hvort strengurinn sé hagkvæmur eða ekki.

Borgaði sig upp í Noregi

Hann ber saman stöðuna á Íslandi og í Noregi, þar sem 600 kílómetra 700 megavatta strengur var lagður til Hollands og borgaði sig upp mjög fljótt og að nú sé verið að skoða möguleika fyrir aðra 500 til 700 kílómetra langa strengi sem verða 1400 megavött. Segir hann að Norðmenn séu að „spila á toppaverðið í Evrópu“, þar sem þeir flytji út raforku á daginn þegar orkuverð er hærra í Evrópu, en kaupi svo rafmagn á nóttunni þegar það er ódýrara. Þetta geti þeir gert þar sem Noregur hafi bæði á að spila umfram aflgetu og þar sem þeir geti stjórnað sveiflunum betur þar sem þeir séu með mikið af vatnsaflsvirkjunum og því geti þær fyllst þegar ekki sé verið að nýta þær á kvöldin og nóttunni.

Ef sæstrengur yrði lagður frá Íslandi hefðum við svipaða möguleika til þess að leika svona á kerfið og slá á sveiflurnar að mati Hauks, en þá yrðum við væntanlega að kaupa rafmagn inn á grunnverði á nóttunni. Segir hann að fyrir Noreg hafi munurinn á toppa- og grunnverði verið nægjanlegur til þess að rekstur sæstrengsins borgaði sig og að verkefnið skilaði nokkrum arði. Þarna væru töluverð sóknartækifæri, en þau færu dvínandi eftir því sem á liði og ef til dæmis Norðmenn færu að leggja fleiri sæstrengi, þá myndi það skerða hag Íslands af svipuðu verkefni.

Áhersla á toppaverð á Evrópumarkaði

Nefndi hann sem dæmi að með Helguvíkurverkefninu þyrfti væntanlega á bilinu 400 til 500 megavött. Ef sú orka yrði einungis nýtt á daginn þegar orkuverð í Evrópu væri sem hæst væri hægt að fá toppaverð fyrir 800 til 1000 megavött á Evrópumarkaði í stað þess að selja álveri orkuna allan daginn. Einnig nefndi hann að nokkuð auðveldlega ætti að vera hægt að stækka Sigöldu-, Hrauneyja- og Vatnsfellsvirkjanir án þess að stækka lón eða fara í umfangsmiklar breytingar. Þar væri hægt að bæta við hverflum svo hægt væri að framleiða meiri rafmagn hluta úr degi, meðan dregið væri úr framleiðslunni þegar verðið væri lægra.

Áhrif á verð á Íslandi

Aðspurður hvort aukin raforkusala til erlendra aðila myndi ekki hafa áhrif til hækkunar á verð til neytenda hér á landi, sagði Haukur að það færi allt eftir þeirri leið sem farin yrði, hvort strengurinn væri stór, lítill og jafnvel á pólitískum atriðum eins og auðlindarentu.

Ef strengurinn yrði lítill myndi það hafa álíka áhrif og eitt nýtt álver, verðið myndi væntanlega hækka ef ekki kæmi til virkjunarkostur sem ætti að anna strengnum og fljótlega yrði farið að skoða nýjan streng ef arðsemi væri góð. Ef strengurinn yrði aftur á móti stór myndi það leiða til þess að aukinn munur yrði á dag- og næturverði hjá neytendum, en auk þess yrðu virkjanakostir hagkvæmari þar sem auðvelt væri að koma rafmagninu í verð erlendis, en það gæti haft áhrif til lengri tíma á að stóriðja færi dvínandi þegar samningar myndu renna út.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK