Konurnar þurrkaðar út úr Ikea-bæklingnum

Við fyrstu sýn lítur Ikea-bæklingurinn sem gefinn var út í Sádi-Arabíu út eins og í öðrum löndum. Það er þó einn munur á: Konur hafa verið þurrkaðar út af myndunum. Í einu tilviki er konu einfaldlega breytt í karlmann.

Frétt af þessu fer nú sem eldur í sinu um sænska vefmiðla. Kvenmannslausi bæklingurinn var birtur á vefsíðu Ikea í Sádi-Arabíu. Ikea segist, samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar, vera að skoða málið og sé að ræða við umboðsmann IKEA í Sádi-Arabíu.

Í bæklingi IKEA þetta haustið er m.a. mynd af fjórum hönnuðum sem hanna fyrir Ikea. En í útgáfunni sem dreift er í Sádi-Arabíu eru þeir bara þrír. Clara Guasch hönnuður fékk ekki náð fyrir augum útgefandans.

Og í einu tilviki er konu breytt í karlmann. Eyrnalokkar eru fjarlægðir og svartir sokkar settir á fætur hennar.

Dagens Nyheter leitaði svara hjá Ikea í morgun og fékk þessi svör hjá blaðafulltrúanum, Söru Carlsson:

„Við munum aldrei sætta okkur við nokkurs konar mismunun. Auðvitað styður Ikea við mannréttindi allra.“

En hvað með sádiarabíska Ikea-bæklinginn?

„Ég þekki þetta mál ekki og hef ekki séð það. Ég get aðeins sagt að Ikea vill jöfn tækifæri fyrir alla.“

Nú hefur hins vegar Ulrika Englesson Sandman, annar talsmaður Ikea, sagt AFP-fréttastofunni að verið sé að skoða málið. Hún segir að þegar Ikea sæki inn á nýja markaði sé leitast við að taka tillit til menningar í hverju landi fyrir sig.

Sænski viðskiptaráðherrann, Ewa Björling, segir í yfirlýsingu að ekki sé hægt að afmá konur út úr raunveruleikanum. „Ef Sádi-Arabar vilja ekki að konur sjáist eða heyrist í þeim eða þær vinni eru þeir að missa af helmingnum af þekkingu þegna sinna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK