Fjárfesta fyrir rúma 10 milljarða

Álver Norðuráls að Grundartanga
Álver Norðuráls að Grundartanga

Verkefni fyrir á annan tug milljarða eru á teikniborðinu hjá Norðuráli á Grundartanga.  Markmiðið er að auka framleiðni, bæta rekstraröryggi og auka framleiðslu um allt að 50 þúsund tonn af áli á ári.

„Heildar-fjárfestingin hér á landi verður yfir 10 milljarða íslenskra króna, auk móðurfélags Norðuráls í rafskautaverksmiðju, þannig að þetta er risavaxið verkefni sem tekur 5 ár að ljúka,“ segir Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, á vef fyrirtækisins.

Allt frá því Norðurál lauk við byggingu seinni kerlínunnar á Grundartanga hefur framleiðslan aukist hægt og bítandi. Þannig hefur framleiðslan aukist frá 260 þúsund tonnum, sem er skráð framleiðslugeta álversins á Grundartanga, í 284 þúsund tonn á ársgrundvelli, samkvæmt frétt á vef fyrirtækisins.

Fyrirhugaðar framkvæmdir, sem auka framleiðslugetu um 30 til 50 þúsund tonn á ári að því gefnu að tilskilin leyfi fáist, hafa að markmiði að auka samkeppnishæfni til lengri tíma. Stærstu verkþættir eru stækkun aðveitustöðvar og umfangsmikil endurnýjun í skautsmiðju auk notkunar stærri rafskauta.

Vinna fyrir 100 manns í fyrsta þætti verkefnisins

Fyrsti þáttur verkefnisins er stækkun aðveitustöðvar álversins. Fimmtu afriðlaeiningunni verður bætt við ásamt undirspennuvörn. Undirbúningur þessara framkvæmda er nú í fullum gangi vestan við aðveitustöðina. Búnaður hefur verið pantaður og kemur til landsins næsta vor.

„Við reiknum með að kostnaður við þennan þátt verði um 3 milljarðar íslenskra króna og reiknað er með að alla jafna muni um 100 manns vinna við þessar framkvæmdir þannig að þetta er mjög góð innspýting í íslenskan vinnumarkað,“ segir Ragnar ennfremur á vef Norðuráls.

Nýja afriðlaeiningin mun auka verulega á stöðugleika í rekstri Norðuráls, þar sem nýtt kerfi verður enn betur varið fyrir spennusveiflum í flutningskerfi Landsnets, segir enn fremur á vef Norðuráls.

Auknar skattaálögur valda stjórnendum fyrirtækisins áhyggjum

„Það eina sem veldur okkur áhyggjum eru endurtekin áform ríkisstjórnarinnar um aukna skattlagningu þrátt fyrir loforð og samninga um annað. Við gerðum samkomulag við ríkisstjórnina árið 2009 um að greiða tímabundinn aukaskatt og fyrirframgreiða skatta til að bæta stöðu ríkisins á erfiðum tímum. Samanlagt eru þetta yfir 2 milljarðar sem þetta eina fyrirtæki hefur greitt aukalega.

Nú boðar ríkið í fjárlögum að það ætli að svíkja þetta samkomulag og halda þessari skattheimtu áfram þrátt fyrir að hafa undirritað skýrt samkomulag um að henni lyki á þessu ári. Það er ekki auðvelt að fá erlent fjármagn til fjárfestinga á Íslandi ef þetta eru efndir stjórnvalda. Við treystum á nýjan fjármálaráðherra sem skrifaði sjálf undir samkomulagið á sínum tíma og trúum ekki öðru en að ríkisstjórnin standi við gerða samninga. Þá mun allt fara á fullt á næstu mánuðum og misserum,“ segir Ragnar í frétt fyrirtækisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK