Kemur heim með nýsköpunarfyrirtæki

Doktor Þorbjörg Jensdóttir, frumkvöðull og eigandi Ice Medico
Doktor Þorbjörg Jensdóttir, frumkvöðull og eigandi Ice Medico Ice Medico

Íslenskir sælgætisgrísir geta nú friðað samviskuna og fengið sér nýju HAp+ molana sem eru sykurlausir, hollir tönnum og auka munnvatnsframleiðslu fólks. Það er sprotafyrirtækið Ice Medico, sem er í eigu Þorbjargar Jensdóttur, doktors í heilbrigðisfræðum frá Kaupmannahafnarháskóla, sem stendur á bakvið vöruna, en Þorbjörg hefur unnið að rannsóknum og þróað vöruna síðasta áratuginn. Hún hefur verið búsett erlendis í langan tíma, en kemur nú heim til að byggja upp vöruna og huga að útrás.

Byrjaði sem mastersverkefni í háskóla

„Ég byrjaði að vinna að þessum rannsóknum þegar ég var mastersnemi við Háskóla Íslands og var að skoða áhrif drykkja á glerungseyðingu tanna“ segir Þorbjörg og bætir við að það hafi komið í ljós að sú aðferðarfræði sem notuð var innan fræðigreinarinnar hafi ekki verið fullnægjandi og að mikið ósamræmi var í niðurstöðum sem unnar voru á rannsóknarstofum og öðrum þar sem faraldsfræðilegum rannsóknum var beitt.

Segir hún að mikilvæg breyta hafi almennt ekki verið skoðuð í alþjóðlegum rannsóknum, en það sé tíminn. Þetta hafi orsakað að menn voru oft að meta tannskaða af eins til þriggja daga sýruárás í munni, í stað nokkurra mínútna eins og raunin er. Þetta kveikti hjá henni áhugann að þróa nýju molana. „Upp úr því þróaði ég aðferðarfræði til að meta glerungsvandaáhrif súrrar matvöru sem var líka vöntun á. Eftir að sú þróun átti sér stað þá varð þessi moli til, þar sem hægt var að mæla fram og til baka hvað þurfti til að gera hann súran en ekki glerungseyðandi.“

Ekki bara fyrir sælgætisgrísi

Molinn er þó ekki bara fyrir sælgætisgrísi sem vilja reyna að minnka sykurinn, heldur eykur hann munnvatnsframleiðslu rúmlega tuttugu falt. Þetta gerir hann að góðum valkosti fyrir þá einstaklinga sem þurfa að taka lyf reglulega, en Þorbjörg segir að samkvæmt Lyfjastofnun valdi 27% markaðssettra lyfja á Íslandi munnþurrki.

Þótt molinn vinni gegn tannskemmdum er hann ekki basískur, heldur er hann með sýrustig á við nammi. Það sem gerir hann aftur á móti góðan fyrir tannheilsu er að kalki er bætt við innihaldið og það í bland við aukið munnvatn ver tennurnar betur. „Það sem molinn gerir er að með því að auka munnvatnsflæðið eykst hreinsunarvirknina í munninum og kalkið passar upp á ákveðið jafnvægi mettunargildis glerungsins“ segir hún, en molarnir munu fást í fjórum bragðtegundum.

Sker sig frá samkeppnisaðilum

Ice Medico verður þó ekki eitt á markaði með svipaðar vörur. Tyggjóframleiðendur hafa lengi haft vörur með svipaða virkni og til eru töflur sem heita Xerodent sem svipar til HAp+. Samkvæmt Þorbjörgu hafa rannsóknir á virkni nýju töflunnar þó sýnt að hún hefur um tvöfalt meiri virkni en Xerodent og um þrefalt meiri virkni en hjá tyggjói. Nú þegar er búið að dreifa HAp+ í nokkur apótek.

Hugmyndin að töflunum er eign hennar auk þriggja leiðbeinenda sem komu að rannsóknunum með henni, en fyrirtækið á hún sjálf. Aðspurð hvort þessi hugmynd hennar muni ekki leiða til þess að hægt verði að umbylta gosdrykkjamarkaðinum segir hún að svo sé ekki. Það sé nefnilega munnvatnið sem hafi úrslitaáhrif með molana, en þegar einstaklingar drekki gosdrykki fari það of fljótt í gegn og því þurfi mjög mikið magn kalks til að ná sömu áhrifum og með molana.

Ísland kallar

Þorbjörg hefur verið búsett erlendis í langan tíma, síðast í Noregi, en hyggst nú koma heim til Íslands og byggja upp fyrirtækið og hefja söluna héðan. „Ætli það sé ekki bara þjóðernishyggja og tilfinningalegs eðlis“ og bætir við að „það sé þessi vilji að vilja byggja upp móðurstöð á Íslandi og fara svo í útrás.“ Aðspurð um hvort aðstæður í íslensku efnahagslífi og gjaldeyrishöftin hafi engin áhrif á þessa ákvörðun hennar segist hún vilja að íslenskt samfélag njóti góðs af atvinnusköpuninni og að gott sé að byrja smátt fyrst áður en farið er í frekari stækkun. Hún hafi þó nú þegar gert ráð fyrir sölu til Noregs á komandi misserum, en framhaldið verði að ráðast af viðtökunum.

Molarnir sykurlausu
Molarnir sykurlausu Ice Medico
Molarnir eru framleiddir í fjórum bragðtegundum.
Molarnir eru framleiddir í fjórum bragðtegundum. Ice Medico
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK