Falla frá kaupréttarsamningum

Eimskip hefur ákveðið að falla frá fyrirhuguðum kauprétti nokkurra stjórnenda Eimskips á hlutabréfum í félaginu. Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, birti í kvöld yfirlýsingu þar sem þetta er staðfest.

„Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að fyrsta áfanga að skráningu Eimskips á markað er lokið og að veruleg umframeftirspurn hafi verið eftir hlutabréfum félagsins. Það er von okkar að almenningur og aðrir fjárfestar muni sýna félaginu jafn mikinn áhuga og fagfjárfestar hafa nú gert. Eimskip stendur á traustum fótum og umtalsverð tækifæri eru á mörkuðum okkar á Norður-Atlantshafi. Starfsmenn Eimskips hafa ávallt hag félagsins að leiðarljósi. Ég og aðrir lykilstjórnendur viljum tryggja áframhaldandi vöxt Eimskips og framgang félagsins á hlutabréfamarkaði og höfum við því ákveðið að falla frá þeim kaupréttum sem okkur voru veittir,“ segir Gylfi.

Helgi Magnússon, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, segist fagna þessari niðurstöðu.

Nokkrir af stærstu lífeyrissjóðum landsins hafa ákveðið að taka ekki þátt í kaupum á hlutabréfum í Eimskip vegna kaupréttarsamninganna. Reiknað er með að gengi bréfanna verði yfir tvö hundruð en sex lykilstjórnendur áttu að fá að kaupa bréf á um fjórðungi lægra verði.

Í vor tók Lífeyrissjóður verzlunarmanna ákvörðun um að kaupa 14% hlut í Eimskipafélagi Íslands. Tengdist sú ákvörðun fyrirhuguðu hlutafjárútboði til fagfjárfesta og einstaklinga sem stendur nú yfir. Áður átti sjóðurinn óverulegan hlut í Eimskip.

Í ljósi umræðu um kauprétti nokkurra stjórnenda Eimskips sendi sjóðurinn frá sér yfirlýsingu fyrr í dag um að hann hefði ekki átti aðkomu að þeim ákvörðunum, sem teknar voru á árunum 2010 og 2011, um að veita stjórnendum fyrirtækisins þá kauprétti sem upplýst hefur verið um, enda átti sjóðurinn ekki aðild að stjórn félagsins.

Reglulegur stjórnarfundur var í Lífeyrissjóði verzlunarmanna í dag. Helgi segir að meðan fundurinn stóð yfir hafi framkvæmdastjóri sjóðsins fengið símhringingu um að ákveðið hefði verið að falla frá kaupréttinum.

„Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna fagnar þessari ákvörðun vegna þess að við teljum mikilvægt að það sé sátt um félagið. Það er ekki gott ef það eru átök milli markaðarins og stjórnenda og starfsmanna fyrirtækisins. Við fögnum þessu og sjáum fram á að þetta verði til góðs fyrir alla aðila,“ sagði Helgi.

Helgi Magnússon.
Helgi Magnússon. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK