Segir Ísland nyrsta Afríkuríkið

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Það sem stendur upp úr eru upphæðirnar, en samtals hafa skattahækkanir frá árinu 2008 verið um 87 milljarðar á verðlagi ársins 2013. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um nýja skýrslu sem samtökin létu gera um skattamál og kynnt var í morgun. 

Leggja til 47 milljarða skattalækkanir

Í skýrslunni eru gerðar tillögur til ársins 2017 um breytingar á skattakerfinu og lækka skatta um samtals 47 milljarða og tryggja með því fjárfestingar fyrirtækja og auka tekjur ríkissjóðs til lengri tíma. Meðal tillagna er að setja veiðigjöld í sama horf og árið 2010, lækka tekjuskatt hlutafélaga úr 20% í 15% í áföngum, auðlegðarskatturinn verði tímabundinn eins og samið var um, tryggingagjald lækki með minna atvinnuleysi og breytingar verði á vörugjöldum og virðisaukaskattskerfi.

Í samtali við mbl.is segir Vilhjálmur að ríkisstjórnin hafi lítið skeytt um skaðleg áhrif sem skattabreytingar hafi haft og þau skaðlegu áhrif sem einstaka ákvarðanir hafi haft. Einnig hafi ekki verið staðið við samninga sem gerðir hafi verið við atvinnulífið og í því samhengi nefnir hann bæði orkuskatt á stóriðjuna og tryggingagjaldið. 

Varðandi tryggingagjaldið þá hafi verið samið um hækkun gjaldsins vegna aukins atvinnuleysis en að það færi svo lækkandi í samræmi við atvinnuleysisstig. Þrátt fyrir að það hafi minnkað hafi tryggingagjaldið haldist óbreytt og segir Vilhjálmur að samtökunum reiknist að hægt sé að lækka það um 0,75 prósentustig.

Vilja vinna með stjórnvöldum

Hann segir atvinnulífið vilja vinna með stjórnvöldum og að oft hafi verið sýnt að menn vilji vinna að þessum málum af ábyrgð og leita raunhæfra lausna. Meðal annars hafi verið skrifað undir stöðugleikasáttmála og samið hafi verið um að aðhaldsaðgerðir skyldu  skiptast í hlutföllunum 45% skattahækkanir og 55% útgjaldalækkanir. 

Niðurstaðan hafi aftur á móti verið öfugt við þetta og skattahækkanir séu 20 milljörðum of miklar meðan niðurskurðurinn sé 20 milljörðum of lítill. Með fjárlögum fyrir árið 2013 hafi ríkisstjórnin svo aukið þetta frávik með því að auka útgjöld ríkissjóðs með nýrri skattlagningu á atvinnulífið. „Ríkisstjórnin hefur viljað vinna hugmyndafræðilega sigra á atvinnulífinu og þá er ekki skeytt um það hvort búið sé að gera samninga um hlutina eða ekki,“ segir Vilhjálmur.

Nyrsta Afríkuríkið

Vilhjálmur var harðorður í garð stjórnvalda á fundinum í morgun sem hann sagði að hefðu komið óorði á Ísland sem fjárfestingatækifæri. „Margar breytingarnar eru þess efnis að þær eru að breyta landafræðinni í huga erlendra fjárfesta. Ísland er ekki lengur hluti af Evrópu þar sem treysta má á orð manna og stöðugleika í starfsskilyrðum, Ísland er orðið nyrsta Afríkuríkið. Um þetta er talað meðal erlendra fjárfesta og þetta er staður sem við viljum ekki vera á.“

Aðspurður um það hvernig gert sé ráð fyrir að hægt sé að draga úr hallarekstri ríkissjóðs þegar búið er að lækka skatta eins og lagt er til, segir Vilhjálmur að þarna sé verið að horfa til næstu 4 ára, en ekki lækkunar beint í dag. Það þurfi líka að hafa í huga að þetta hangi saman við þá sýn sem samtökin hafi um hagvöxt og til að búa til aukna skattstofna með því að stækka kökuna, þá þurfi að gefa fyrirtækjum svigrúm til að geta farið í fjárfestingar. Ekki sé búið að sundurliða nákvæma tímasetningu aðgerðanna, en hægt sé að nota þær sem hornstein fyrir komandi stjórnvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK