Már segir Íslendinga ráða för

Már Guðmundsson á fundi Viðskiptaráðs Íslands í morgun
Már Guðmundsson á fundi Viðskiptaráðs Íslands í morgun Styrmir Kári Erwinsson

Vandamálið varðandi útgreiðslur úr þrotabúum gömlu bankanna er minna en af er látið, en það þarf að passa að tímasetning og leiðir greiðslna séu með þeim hætti að það raski ekki greiðslujöfnuði Íslands. Þetta sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, á peningamálafundi Viðskiptaráðs Íslands í morgun. 

Már sagði í máli sínu að miðað við útreikninga Seðlabankans væri skuldavandinn viðráðanlegur. Hann var þó spurður hver staðan yrði ef sú spá gengi ekki upp og hvort til væri varaleið. Sagði hann að ríkið og hið opinbera væri fyllilega hæft um að greiða af sínum skuldum, en ef fyrirtæki gætu það ekki ættu að semja við lánastofnanir um lenging og niðurfellingar. Dugi það ekki til komi til gengislækkunar sem jafni sveifluna.

Varaleiðin eru samningaviðræður og jafnvel gengislækkun

„Segjum sem svo að það kæmi nú í ljós að miðað við núverandi undirliggjandi afgang þá væri vaxtastig ósjálfbært og næði ekki fyrir vöxtum á skuldunum og þær héldu áfram að vaxa. Hvað á það að gerast? Aðalatriðið er hvort ríkið og opinberir aðilar og þeir sem eru með ríkisábyrgðir standi undir sínum skuldum og já þeir gera það. En ef fyrirtækin í landinu geta ekki greitt af sínum skuldum, þá verða þau að fara í samningaviðræður við sína skuldunauta, eins og sveitafélögin og Orkuveitan hafa verið að gera með lánalengingum og niðurfellingum. Ef það dugar ekki til, þá verður gengi krónunnar að gefa eftir, það er stillipunkturinn í þessu. Ég held að staðan sé ekki svona.“

„Við segjum þeim bara hvernig þetta á að vera“

Aðspurður um áhættuna á krónueign erlendra aðila og samningaviðræður við þrotabú bankanna sagði að Íslendingar væru þar í bílstjórasætinu. „Ég veit ekki hvort við semjum neitt við þrotabúin. Við segjum þeim bara hvernig þetta á að vera. Við höfum öll tromp á hendinni því annars fá þau ekki nauðasamninga“.

Hann taldi þó vandamálið minna en af væri látið, þó það væri mjög mikilvægt að rétt væri að þessu staðið. „Við þurfum að fara í þetta þrotabúarmál þannig að það sé algjörlega tryggt að greiðslurnar úr þrotabúinu fari eftir þeim leiðum og séu á þeim tímatakti að það raski ekki greiðslujöfnuði Íslands. Við munum taka bú fyrir bú og hvert bú verður að uppfylla þessi skilyrði. “

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK