Íslenskt byggþarapasta á leið á markað

Byggpasta og Byggþarapasta
Byggpasta og Byggþarapasta

„Hugmyndin var að vinna með íslensk hráefni og sameina gæði sjávar og sveita í einni vöru.“ Þetta segir Sæmundur Elíasson, en hann og Jón Trausti Kárason hafa unnið að þróun á byggpasta sem stendur til að setja á markað á næstunni. Verður pastað einnig í boði með marínkjarna, sem er tegund brúnþörunga. 

Sæmundur segir í samtali við mbl.is að þeir hafi verið með bygg í höndunum og velt því fyrir sér hvort hægt væri að þróa áfram vörutegund sem notaðist við íslenskt hráefni. Fljótlega hafi pastahugmyndin komið upp og við það bættust þörungarnir.

„Við fengum styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að fá nemanda úr Listaháskólanum í umbúðarhönnun. Vöruþróunin hélt svo áfram með styrk frá Vöruþróunarsetri sjávarafurða og verkefnið er nú unnið áfram í samstarfi við Matís“ segir Sæmundur. 

Hvítt hveiti hefur á síðustu misserum ekki verið það sem helst leitar upp í huga fólks þegar rætt er um heilsusamlegt fæði að sögn Sæmundar. „Það var eitt af markmiðunum að gera vöruna hollari. Pasta hefur fengið svolítið neikvæða ímynd og fólk tengir það við neyslu á unnum hveitivörum. Með því að skipta út hveitinu fyrir bygg, þá ertu kominn með trefjaríkari vöru og með þörungunum erum við komnir með hollari vöru með steinefnum og andoxunarefnum“.

Fyrsti söludagurinn var um helgina, en tilraunaútgáfa af pastanu var seld í Laugardalshöll meðan Alþjóðaleikarnir í Reykjavík fóru þar fram. „Næstu skref er að kaupa pastagerðarvél svo við getum aukið við framleiðslugetuna og nýlegur nýsköpunarstyrkur frá Landsbankanum gerir okkur það kleift“ að sögn Sæmundar. 

Ætlunin er að byrja smátt og selja pastað í sérvöldum verslunum, en Sæmundur vonast til að geta bætt í þegar á líður. Byggið sem notað er í framleiðsluna kemur frá Þorvaldseyri, en marínkjarninn frá Íslenskri bláskel og er úr Breiðafirðinum.

Hugmyndin er þó ekki aðeins að bjóða upp á nýstárlega útgáfu af pasta, heldur vilja þeir félagar tengja neyslu á þara við evrópska matargerð. „Við viljum kynna þara og þörunga sem fæðu í Evrópu, sem ég tel ekki vera almennt viðhorf í dag.“ Hann segir þara mikið notaðan í asískar vörur, en að þeir vilji sjá þetta í matargerð sem fólk tengi betur við Evrópu. Þannig geti vörur, eins og pasta, sem allir tengi við Ítalíu hjálpað til við að markaðssetja þarann víðar.

Sæmundur Elíasson
Sæmundur Elíasson
Efnisorð: Sæmundur Elíasson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK