Smálánin leynast víða

Árlegur hlutfallskostnaður kortalána getur numið allt að 75%. Samtök fjármálafyrirtækja …
Árlegur hlutfallskostnaður kortalána getur numið allt að 75%. Samtök fjármálafyrirtækja leggjast gegn því að sett verði 50% þak í nýju lagafrumvarpi. Morgunblaðið/Kristinn

Samtök fjármálafyrirtækja segja þak á árlega hlutfallstölu kostnaðar við lántök þurfa að vera hærra en 50% svo ekki verði röskun á ríkjandi viðskiptaháttum.

Í athugasemd vegna neytendalánsfrumvarps sem er í vinnslu, leggja samtökin til að hámarkið verði 75% og að markmið frumvarpsins náist jafnvel þótt þetta hlutfall sé hækkað upp í 100%.

Segja samtökin gjaldtökuna sanngjarna og vinsæla hjá neytendum. Þingmaður segir háan lánakostnað ekki einskorðaðan við smálánafyrirtækin og að viðhorf samtakanna sé kjarni vandamálsins hér á landi.

Samtökin setja í athugasemd sinni upp níu dæmi um algeng lán hér á landi, aðallega kortalán, þar sem árleg hlutfallstala kostnaðar fer upp í allt að 74%. Það vekur athygli að eitt lánanna sem samtökin taka sem dæmi er auglýst sem vaxtalaust, en ber engu að síður 71,27% árlegt kostnaðarhlutfall.

Í öðru dæmi, þar sem rúmlega 20 þúsund króna lán er auglýst sem vaxtalaust, er árleg hlutfallstala kostnaðar 58%. Segja samtökin að þar sé á engan hátt farið óðslega í gjaldtöku og að lánin séu bæði sanngjörn og vinsæl.

Mikið hefur verið rætt um háan kostnað við töku smálána og reiknaði Morgunblaðið meðal annars að eitt smálánafyrirtækjanna væri að bjóða upp á lán með rúmlega 600% vöxtum á ári.

Alþingismaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson segir að þetta háa hlutfall komi sér mikið á óvart. „Það er eðlilegt að umbuna fyrir skilvísi, sem þýðir eðli málsins samkvæmt að þeir borga aukalega sem ekki standa skil. Ég áttaði mig aftur á móti ekki á því hve hlutfallstölurnar væru háar.“

Vandamálið á sér dýpri rætur að sögn Guðlaugs, en hann telur að auka þurfi verulega fjármálalæsi landsmanna, bæði þeirra sem yngri og eldri eru. Þá sé neytendavernd í lamasessi hérlendis og að löggjöfin þurfi að búa til eðlilegan ramma kringum þessa starfsemi. 

„Það má vel vera að þetta sé vinsælt, en þetta er ekki sanngjarnt“ segir Guðlaugur og bætir við að „það myndi heyrast eitthvað í fólki ef því væri boðið upp á lán með 75% vöxtum.“ Segir hann að með misvísandi framsetningu komist lánafyrirtæki hjá því að setja fram heildarkostnað lána.

Guðlaugur segir að fólk verði að fara að temja sér aðra hætti. Þetta geti ekki gengið svona til lengdar. Hann telur að ummæli samtakanna í athugasemdinni þar sem svo há gjaldtaka eru sögð sanngjörn kristalli vandann sem hér eigi sér stað. Þá hafi menn ekki heldur gert sér grein fyrir því hve víða þetta lýðist. „Menn hafa lengi bara horft á smálánafyrirtækin út af háum kostnaði, en smálánin leynast greinilega víða.“

Guðlaugur Þór segir að lán sem beri 75% árlegan hlutfallskostnað …
Guðlaugur Þór segir að lán sem beri 75% árlegan hlutfallskostnað séu ekki sanngjörn. Ómar Óskarsson
Efnisorð: smálán vextir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK