Aukinn áhugi erlendis frá

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar mbl.is/Styrmir Kári

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að Landsvirkjun finni fyrir auknum áhuga erlendis frá að koma hingað til lands. Hér hafi verið fjölmargar framkvæmdir í tengslum við orkufrekan iðnað, til að mynda Búðarhálsvirkjun og gagnaver sem hafa tekið til starfa hér. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Harðar á fundi Samtaka atvinnulífsins um atvinnutækifæri hér á landi.

Hann segir að það sé enginn vafi að eftirspurn eftir orku á Íslandi verði meiri en framboð á næstu árum.

Sæstrengur áhugaverður kostur

Sæstrengur er meðal þess sem Landsvirkjun er að skoða. Að sögn Harðar styður sæstrengur við allar þrjár stoðir rekstrar Landsvirkjunar, meðal annars með nýtingu umframorku. Eins megi ekki gleyma því að með þessu tengist fyrirtækið evrópskum orkumarkaði.

Hörður segir hins vegar að þetta sé verkefni sem taki tíma og lúti bæði pólitískum og viðskiptalegum hagsmunum.

Að sögn Harðar sé mikilvægt að horfa til áhrifa af framkvæmdum við orkuver, svo sem framkvæmdir og sköpun starfa við þær. Athuga verði hins vegar að framkvæmdirnar eru vinnuaflsfrekar en um leið er einungis um skammtímaáhrif þar að ræða.

Hörður fjallar einnig um möguleikann á því að leggja sæstreng til Bretlands og selja neytendum þar í landi íslenska græna orku, í nýju riti Samtaka atvinnulífsins, Fleiri störf  Betri störf.

Hann segir tengingu við raforkukerfi í Evrópu geta skapað mun meiri verðmæti en menn geri sér grein fyrir í dag.

„Við höfum séð þetta í sjávarútvegi. Hvernig tókst með því að þróa flugfrakt að styrkja flugsamgöngur og skapa öflug flutningafyrirtæki sem vinna á alþjóðamörkuðum. Koma þannig ferskum sjávarafurðum á þá markaði sem greiða besta verðið. En skapa um leið möguleika á að flytja inn ýmsa ferska matvöru daglega og bæta almenn rekstrarskilyrði atvinnulífsins með bættu aðgengi að t.d. varahlutum.

Varðandi mögulegan sæstreng höfum við hins vegar lagt mikla áherslu á að það þurfi að vanda skoðunina. Það þarf að vera breið sátt um verkefnið. Það þarf að skoða heildaráhrifin, ekki bara á raforkusöluna heldur á samfélagið, og hvaða áhrif þetta hefur á orkuverð, orkuframboð og hvernig við tryggjum samkeppnishæfni iðnaðarins. Við teljum hins vegar að hagsmunirnir séu það miklir að það þurfi að skoða þetta af fyllstu alvöru,“ segir Hörður í ritinu.

Hann segir að Íslendingar séu þegar að flytja út raforku, til að mynda með vörum eins og áli.

„En í raun og veru snýst þetta um að komast á sem fjölbreyttasta markaði og skapa sem mest verðmæti. Það er mjög áhugavert að skoða áhrif þess að komast t.d. inn á neytendamarkaðinn í Bretlandi, sem er sá markaður sem borgar hvað hæst raforkuverð. Okkar skoðun er að þetta hafi mun minni áhrif á fjölda starfa á Íslandi en menn halda. Jafnvel má halda því fram að fleiri störf gætu orðið til á Íslandi vegna aukinnar orkuvinnslu og framkvæmda því tengdu,“ segir Hörður.

Hann segir að möguleikar Íslands séu ekkert síðri en Norðmanna þegar kemur að endurnýtingu orku. Orkuöflunartækifærum getur fjölgað og fjölmörg ný og verðmæt störf gætu orðið til í raforkuiðnaði á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK