Mesta sveiflan í rúm þrjú ár

AFP

Mikil hækkun hefur orðið á gengi krónunnar í dag, en það sem af er morgni hefur það styrkst um rúmlega 1,7%, sé tekið mið af gengisvísitölu krónunnar sem vegur saman helstu viðskiptamyntir landsins. Svo mikil hreyfing á einum viðskiptadegi hefur ekki verið í þessa átt síðan seint í ágúst árið 2009, þ.e. að því gefnu að styrkingin gangi ekki til baka síðar í dag. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Þessa styrkingu má líklega rekja til inngrips af hálfu Seðlabanka Íslands nú í morgun en bankinn seldi að minnsta kosti níu milljónir evra á millibankamarkaði í þremur viðskiptum. „Þá teljum við líklegt að fleiri seljendur hafi slegist í hópinn á markaði, en til samanburðar styrktist krónan um 0,5% við 6 m.evra inngrip Seðlabankans í lok síðasta árs,“ segir í Morgunkorni.

Svo virðist sem veiking krónu nú í janúar sé að fullu gengin til baka, og er gengi hennar að jafnað svipað og í fyrstu viku janúarmánaðar.

„ Tímasetning inngripsins nú er athyglisverð í kjölfar talsverðar veikingar krónu í gær og fyrradag. Eftir inngrip Seðlabankans á gamlársdag sagði Seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, að inngripin hefðu komið í kjölfar útflæðis sem bankinn taldi tímabundið. Hugsanlega er sama uppi á teningnum nú, og Seðlabankinn telur sig hafa upplýsingar um betri tíð í gjaldeyrisflæði til og frá landinu sem hann vill með þessum hætti miðla inn á markað. Í öllu falli hefur bankinn takmarkað svigrúm til þess að standa gegn viðvarandi útflæði gjaldeyris með samsvarandi sölu úr skuldsettum gjaldeyrisforða sínum,“ segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK