Íslenskt eldsneyti selt til Hollands

Verksmiðja CRI í Svartsengi
Verksmiðja CRI í Svartsengi Mynd/CRI

Fyrsti farmur af endurnýjanlegu eldsneyti frá verksmiðju íslenska nýsköpunarfyrirtækisins Carbon Recycling International (CRI) hefur verið afhentur hollenska olíufyrirtækinu Argos í Rotterdam. Eldsneytinu, metanóli af endurnýjanlegum uppruna sem framleitt er úr vatni, raforku og koltvísýringi, verður blandað í bensín fyrir almennan markað í Hollandi. Koltvísýringur til framleiðslunnar er fangaður úr útblæstri orkuvers HS Orku í Svartsengi.

Fyrirtækið getur í dag framleitt um 1,7 milljónir lítra af eldsneyti og Benedikt Stefánsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá CRI, segir að það verði í fyrstu lotu selt allt til Hollands. Ekki mun líða á löngu þangað til Íslendingar verði skuldbundnir af EES samningnum til að skipta út hluta af bensíni og dísil með eldsneyti af endurnýjanlegum uppruna. Benedikt segir að þá muni fyrirtækið einnig hefja sölu hérlendis, en hann gerir ráð fyrir að á næstu árum gæti eftirspurnin orðið allt að 5 milljón lítrar.

Um 25 milljarðar lítra af metanóli eru notaðir í eldsneyti í heiminum á hverju ári en aðeins brot af þessu magni er enn af endurnýjanlegum uppruna. Markaður fyrir endurnýjanlegt eldsneyti í Evrópu er nú um 5% af heildarorkuþörf bílaflotans en gert er ráð fyrir að hann muni tvöfaldast fyrir lok þessa áratugar.

Endurnýjanlega eldsneytið er ekki dýrara að hans sögn og mun því ekki hafa áhrif til hækkunar fyrir kaupendur. Einnig hafa verið gerðar tilraunir á því síðustu áratugina og segir Benedikt að ekki þurfi að hafa áhyggjur af áhrifum á bílvélar. 

Það sem gerir þennan nýja eldsneytiskost vænlegan að sögn Benedikts er að með honum er verið að losa alveg jafn mikið kolefni og hefði annars farið út í andrúmsloftið frá orkuverinu. Með þessu er því komið í veg fyrir tvöfalda brennslu kolefnis, með að endurnýta það kolefni sem kemur frá orkuverinu. 

Um 25 starfsmenn vinna hjá CRI, en af þeim eru um 15 í rannsókn og þróun að sögn Benedikts. Hluthafar í fyrirtækinu eru um 60, en meðal þeirra stærstu eru Títan fjárfestingarfélag, Auður Capital, Sindri Sindrason og Guðmundur Jónsson.

Benedikt Stefánsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Carbon Recycling International.
Benedikt Stefánsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Carbon Recycling International. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK