Lyfjaútrásin til Spánar stóðst hrunið

Friðrik Steinn Kristjánsson
Friðrik Steinn Kristjánsson Ómar Óskarsson

Þrátt fyrir að mörg útrásarverkefni hafi farið forgörðum í bankahruninu sem varð hér á landi árið 2008 eru líka dæmi um verkefni sem hafa staðið af sér allt slíkt umrót og haldið áfram að vaxa og dafna. Eftir sameiningu Omega Farma og Delta árið 2002 fór framkvæmdastjóri þess fyrrnefnda að leita spennandi verkefna utan landsteinanna og fann samheitalyfjaframleiðslufyrirtæki á Spáni sem bauð upp á góða möguleika. Síðan þá eru liðin um 9 ár og fyrirtækið er orðið nokkuð stórt á spænska vísu með um 400 starfsmenn og 14 milljarða sölu á ári.

Friðrik Steinn Kristjánsson stofnaði Omega Farma árið 1990 og varð framkvæmdastjóri félagsins. Hann leiddi það áfram allt til ársins 2002 þegar það sameinaðist Delta og varð seinna að Actavis. 

Mikil tækifæri á Spáni

Hann segist fljótt hafa séð tækifæri á Spáni, en möguleikar fyrir samheitalyfjasölu voru töluverðir þar. „Eftir sameininguna fór ég að leita að öðrum tækifærum og leitaði víða um heim. Ég hafði sérstakan áhuga á Spáni þar sem notkun samheitalyfja var lítil og ljóst að hún ætti eftir að aukast mikið. Einnig hafði ég mikinn áhuga á spænskri tungu og menningu“ segir Friðrik.

Árið 2004 fann hann tvö áhugaverð fyrirtæki í eigu sama aðila sem heita Inke og Laboratorios Lesvi. Kaupin fóru fram í gegnum félagið Invent Farma ehf, sem er að hluta í eigu Friðriks, en auk hans eru hluthafar í félaginu Jón Árni Ágústsson, Ingi Guðjónsson, Frosti Bergsson, Daníel Helgason og Ingimundur Sveinsson og fleiri.Íslenskir hluthafar eiga 87% hlut í félaginu, en erlendir starfsmenn um 13%.

Hrunið hafði ekki áhrif

Hluti kaupanna var fjármagnaður með eigin fé að sögn Friðriks, en hluti var fjármagnaður með láni frá íslenskum banka. Friðrik segir að þetta sýni að hluti af útrásarverkefnum hafi gengið upp, öll lán í skilum og ekkert hafi verið afskrifað á fyrirtækið. Þar sem öll sala fyrirtækisins er í erlendri mynt þurfti ekki að hafa áhyggjur af lækkun krónunnar, sem hefur komið sér vel við endurgreiðslu.

Fyrirtækið rekur í dag tvær verksmiðjur nálægt Barcelona. Önnur framleiðir virk lyfjaefni og hin framleiðir tilbúin lyf eins og hylki, töflur og stungulyf. Starfsmenn eru samtals um 400, en veltan á síðasta ári var um 80 milljón evrur og hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA) nam um 20 milljón evrum.

Friðrik segir að byggt hafi verið upp á eigið vörumerki á Spáni og sem slíkt sé fyrirtækið meðal tíu stærstu framleiðenda þarlendis. Spánn er stærsta einstaka markaðssvæði fyrirtækisins, en helmingur veltunnar kemur þó vegna sölu utan Spánar. Þar eru Bandaríkin, Evrópa, Japan og Kórea mikilvægustu markaðirnir að sögn Friðriks.

Minni fyrirtækin eiga góða möguleika

Aðspurður hvort það sé ekki ógerlegt skref að stíga inn á lyfjaframleiðslumarkaðinn í dag með lítið eða millistórt fyrirtæki á alþjóðavísu og ætla að keppa við risana segir Friðrik svo ekki vera. „Það eru allir háðir öðrum og það er enginn sem framleiðir allt sjálfur. Það skiptir engu máli hversu stórt fyrirtækið er, það þarf alltaf að kaupa vörur frá öðrum og Invent Farma framleiðir lyf fyrir risana

Hann segir að í dag framleiði Invent Farma flestar tegundir samheitalyfja, en það á yfir hundrað einkaleyfi á framleiðsluaðferðum Í þróunarvinnu fyrirtækisins sé meðal annars unnið að því að bæta fyrri lyf og gera þau notendavænni, en það sinni þó ekki grunnrannsóknum og þróun.

Ekki er líklegt að mati Friðriks að farið verði í miklar stækkanir á framleiðslu fyrirtækisins, en hann hefur þó ekki setið auðum höndum sjálfur. Meðal annars hafi hann nýlega tekið þátt í stofnun líftæknifyrirtækis, Inves Biofarm í Granada á Spáni sem sérhæfir sig í þróun lyfja við sjaldgæfum sjúkdómum. Tólf manns starfa hjá fyrirtækinu, en Friðrik segir að mikil þróunarvinna eigi sér stað þar sem stendur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK