Prins í rifrildi við Forbes um auðæfin

Alwaleed bin Talal. stækka

Alwaleed bin Talal. ASSOCIATED PRESS

Það er ekki nokkur spurning um að prins Alwaleed Bin Talal frá Sádi-Arabíu er meðal ríkustu manna heims. Auður hans liggur meðal annars í eignarhaldi á 95% hlut í His Kingdom Holding Company, sem á fjölda hótela, hlutabréfa í Citigroup, News Corp, Twitter og öðrum stórum netfyrirtækjum. Þá á prinsinn fasteignir um allan heim og var fyrstur einstaklinga til að kaupa sér Airbus A380 þotu til einkanota. 

Vill fara upp um 16 sæti

Heildareignir hans skila prinsinum í 26. sæti auðmannalista tímaritsins Forbes, en það nægir honum ekki. Strax og listinn var birtur kvartaði hann opinberlega undan því að eigurnar væru ekki metnar verðmætari og gerði kröfu um að vera færður upp í eitt af efstu 10 sætunum.

Í fréttatilkynningu frá prinsinum kom fram að samkvæmt greiningu Forbes væru eigur hans metnar á um 20 milljarða Bandaríkjadollara.

Al Waleed bin Talal er eigandi stærstu einkaþotu í heimi, Airbus A380.

Al Waleed bin Talal er eigandi stærstu einkaþotu í heimi, Airbus A380. mbl.is

Samkvæmt hans útreikningum væru þær hins vegar mun nær því að vera 30 milljarðar dollara, sem myndi skila honum rétt fyrir aftan snyrtivöruerfingjann Liliane Bettencourt. 

Segir prinsinn beita markaðsbrellum

Forbes var ekki lengi að svara fyrir sig og sakaði Bin Talal um að beita blekkingum við að láta það líta út fyrir að eigur hans væru meiri en þær raunverulega eru. Í langri grein á vefmiðli Forbes fer blaðakonan Kerry A. Dolan, umsjónarmaður auðmannalistans, yfir samskipti tímaritsins við prinsinn gegnum tíðina og meintar markaðsbrellur sem hann notar. 

Síðan listi Forbes var fyrst kynntur árið 1988 hefur prinsinn alltaf verið viðriðinn hann.

Prinsinn hugsar mikið um ímyndina og þykir almennt mjög vestrænn í framkomu. Hann hikar hins ...

Prinsinn hugsar mikið um ímyndina og þykir almennt mjög vestrænn í framkomu. Hann hikar hins vegar ekki við að klæðast líka þjóðlegri klæðnaði við opinber tilefni. AFP

Dolan segir að prinsinn hafi sjálfur á þeim tíma nálgast blaðið til að vera með á listanum. Síðan þá hafi hann gengið manna harðast fram varðandi að fá sínu framgengt varðandi upplýsingar á listanum. Í grein sinni segir Dolan að jafnvel Donald Trump komist ekki með tærnar þar sem prinsinn hefur hælana í þessum efnum. 

Hann hafi meðal annars margoft sent sendinefndir á skrifstofu Forbes með nánar upplýsingar yfir verðmæti eigna sinna og það eina markmið að hans tölur verði nú örugglega teknar gildar.

Dolan segir að litlar skýringar hafi fundist á þessum ákafa prinsins, en margir hafa talað um að hann sé undir mikilli pressu um að standa sig. Það sé meðal annars vegna þess að föðurafi hans hafi verið einn stofnenda Sádi-Arabíu, meðan móðurafi hans var fyrsti forsætisráðherra Líbanons. 

Arabíu-Buffett

Sagan segir að Bin Talal hafi byrjað fjárfestingaferil sinn með 30 þúsund dollara króna gjöf frá fjölskyldunni, en hann er frændi kóngsins í Sádi-Arabíu, og 300 þúsund dollara láni. Hann hafi svo ávaxtað þetta fé vel, en stóra stökkið kom árið 1991 þegar Citicorp hafi verið að leita að fjárfestum og hann hafi náð saman 800 milljónum dollara og sett í bankann. Þessi upphæð hans margfaldaðist og árið 2005 var hluturinn metinn á 10 milljarða dollara. 

Þegar þarna var komið við sögu var prinsinn oft nefndur Arabíu-Buffett og var honum þá líkt við bandaríska fjárfestinn Warren Buffett, fjórða ríkasta mann heims. Munurinn á þeim tveimur er þó að meðan Buffett gerir sjaldan mistök, þá er ferill Bin Talal mun sveiflukenndari.

Twitter, Apple og eBay

Þrátt fyrir að hafa hagnast vel á bréfum í eBay, Twitter og Apple, þá setti hann einnig mikla peninga í Kodak sem töpuðust og þá hafa fjárfestingar hans í mörgum félögum verið frekar slakar. Þá seldi hann einnig bréf sín í Apple árið 2005, áður en mesta hækkunin kom.

Stærsta eign prinsins er sem áður segir 95% hlutur í The Kingdom Holding Company. Það er einmitt þessi hlutur sem Forbes setur hvað mestar efasemdir um. Í grein sinni fer Dolan yfir hækkanir hlutabréfa þess síðustu 4 árin og kemst að því að eitthvað mjög undarlegt eigi sér stað þar.

Bréfin lækkuðu en verðmætið jókst

Frá árinu 2007 hafa bréf í Citigroup lækkað um 90%, en þau eru einmitt aðaleign fjárfestingafélags prinsins. Til að byrja með lækkuðu bréf félagsins um 60% og fóru niður í 8 milljarða. En árið 2010 fór eitthvað undarlegt að gerast. Bréfin í The Kingdom Holding Company hækkuðu um 57% á tíu vikna tímabili áður en listi Forbes var kynntur. Á sama tíma lækkuðu bréf Citigroup um 20%.

Árið eftir var svipað upp á teningnum, en bréf félagsins hækkuðu um 31%, meðan hlutabréfavísitölur hækkuðu almennt um 3 til 9%. Árið 2012 risu bréfin aftur og nú um 56%, þrátt fyrir aðeins 9 til 11% almenna hækkun á mörkuðum. 

Heimildamenn Forbes segja að með skráningu félagsins á markað hafi prinsinn fengið tækifæri til að leika sér með markaðsvirði bréfanna, en almennt er lítil hreyfing á þeim og upplýsingar í ársreikningum eru ófullnægjandi og gefa meðal annars ekki upp hverjar eigur þess eru nákvæmlega. 

Með þessu geti prinsinn annaðhvort stundað það að kaupa af sjálfum sér óbeint eða með aðkomu einhvers sem tengist honum og hækkað eða lækkað bréfin í félaginu að vild. 

Gaf eigin félagi 600 milljónir dollara

Á árunum 2009-10 gerði endurskoðunarfélagið Ernst & Young meðal annars athugasemdir við ársreikningana á þeirri forsendu að of mikill munur væri á markaðsvirði félagsins og raunverulegu virði eignanna. Prinsinn var þá fljótur til og setti eigin bréf að virði 600 milljónir dollara inn í félagið, en það þýðir í raun að hann hafi persónulega gefið félaginu bréfin. 

Fyrir útgáfa listans í ár var Forbes því viðbúið einhverjum hækkunum, en prinsinn sló fyrri árum alveg við og bréf félagsins hækkuðu á árinu um rúmlega 130% meðan almennur hlutabréfamarkaður hækkaði um 6 til 13%. Eftir gaumgæfilega skoðun lækkuðu því greiningaraðilar tímaritsins metnar eigur prinsins niður um tæplega 10 milljarða.

Hættur að auglýsa

Viðbrögð prinsins hingað til við þessu öllu hafa verið að lýsa því yfir að hann ætli ekki að auglýsa framar hjá Forbes og muni nú snúa kröftum sínum yfir til Bloomberg, sem í fyrra hóf að birta líka auðmannalista. Í ár var prinsinn metinn samkvæmt sínum tölum á þeim lista.

  • Til baka
  • Blogga um frétt
  • Senda
Svæði

Myntbreyta

Mynt Fjárhæð Mynt Fjárhæð
  ISK   USD
  EUR   GBP
  CAD   DKK
  NOK   SEK
  CHF   JPY
Gengi gjaldmiðla

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir