2 milljónir ferðamanna ekki fjarri lagi

Dr. Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, segir spá um …
Dr. Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, segir spá um 2 milljónir ferðamanna ekki fjarri lagi. Rax / Ragnar Axelsson

„Ég held að við séum að fara inn í gríðarmikið vaxtarskeið og að gestum muni fjölga mjög ört á næstunni.“ Þetta segir dr. Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, en við hann er rætt í nýútkomnu tímariti Landsbankans um ferðamál.

Hann telur að fjölgunin sem varð í ferðaþjónustunni á þessu ári muni halda áfram á komandi árum. „Við sáum um 20% vöxt milli ára í fyrra og mikinn vöxt árin á undan. Ég held að þróunin verði hin sama á þessu ári og í fyrirsjáanlegustu framtíð munum við upplifa gífurlegt vaxtarskeið nema ófyrirséðir utanaðkomandi þættir breyti þróuninni,” segir Huijbens. 

Nú blasir við að árið 2015 eða 2016 náist það markmið sem lengi var orðað í ferðaþjónustu; að fá til landsins eina milljón ferðamanna á ári og nokkuð fyrr en spár hafa gert ráð fyrir til þessa. Lengst af hafa spár gengið út á að þessu markmiði verði náð 2020 en Huijbens segir augljóst að það verði talsvert fyrr.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var reyndar búinn að spá því að hingað
kæmu tvær milljónir ferðamanna árið 2020 og Huijbens segist telja að það sé ekki
fjarri lagi. „Ég er ekki frá því að hann hafi nokkuð til síns máls þó hann hafi líklega
fylgt brjóstvitinu einu,“ segir Huijbens.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK