Samningur um dýrasta skip Íslandssögunnar

Skip af gerðinni Havyard 832L L WE
Skip af gerðinni Havyard 832L L WE

Íslenska olíuþjónustufyrirtækið Fáfnir Offshore ehf. hefur gert samning við Havyard group um að smíða fyrsta sérútbúna íslenska skipið til að þjónusta olíuleit og eftir atvikum vinnslu á hafsvæðunum norður og austur af Íslandi. Skipið er sérstaklega gert fyrir erfiðar aðstæður á norðurheimskautasvæðinu og mun verða dýrasta skip Íslandssögunnar, en smíði þess mun kosta um 7,3 milljarða króna. Stefnt er að afhendingu skipsins í júlí á næsta ári.

Það var Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra sem kynnti samninginn í dag, en hann sagði að með þessu yrði Ísland tilbúið að mæta tækifærum sem gætu skapast á norðurslóðum. „Ég fagna því frumkvæði sem Fáfnir Offshore sýnir og tel að smíði fyrsta íslenska skipsins til að þjónusta olíuleit marki tímamót í iðnaðarsögu okkar Íslendinga. Fyrstu leyfin til olíuleitar hafa verið gefin út og ég er sannfærður um þetta skip mun vera upphafið að happasælli nýrri atvinnugrein; þjónustu við olíuleit- og vinnslu,” sagði Össur.

Steingrímur Erlingsson, forstjóri Fáfnis, sagði að eftir að hann hafi hætt í fiskiðnaði í Kanada árið 2011 hafi hann haft tækifæri til að skoða þjónustuiðnaðinn á sjó í Noregi, en nú sé hann staðráðinn í að byggja upp slíka þjónustu á Íslandi. „Þetta er fyrsta skrefið,“ var haft eftir honum.

Skipið verður af gerðinni Havyard 832L L WE og er sérstaklega gert fyrir erfiðar aðstæður á Norður-Atlantshafinu. Samningurinn milli Fáfnis og Havyard er metinn á 330 milljónir norskra króna, eða 7,3 milljarða íslenskra króna. Íslandsbanki og GIEK hafa undirritað viljayfirlýsingu þess efnis að fjármagna verkefnið.

Um 30 manna áhöfn verður um borð í skipinu, en það er í flokki B varðandi styrkleika (e. Ice Class B). Lengt þess er 88,5 metrar og breiddin 17,6 metrar. Þilfarið er 850 fermetrar, en skipið er sérstaklega hannað til að geta flutt birgðir til og frá palla á hafi úti. 

Heimahöfn skipsins verður í Fjarðarbyggð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK