Höftin krabbamein sem eykur spillingu

Ágúst Einarsson
Ágúst Einarsson

Um 40 þúsund manns vinna í verslunargeiranum hérlendis, en það er um 20% íslenskum vinnumarkaði. Þá stendur greinin undir um helmingi skatttekna ríkisins. Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Ágústs Einarssonar, hagfræðings, á morgunfundi Samtaka verslunar og þjónustu og Rannsóknaseturs verslunarinnar. Kynnti hann þar nýja rannsókn, en sagði niðurstöður hennar sýna fram á hversu gjaldeyrishöftin væru mikið mein á verslun hérlendis.

Í samtali við mbl.is sagði Ágúst umfang verslunarinnar meira en menn gerðu sér grein fyrir. „Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að umfang verslunar eru miklu meira en menn hafa almennt talið. Verslunin er að skila um 20% til landsframleiðslunnar og rúmlega 20% af íslenskum vinnumarkaði vinnur við verslun, eða um 40 þúsund manns,“ sagði Ágúst. „Þá stendur verslunin undir mjög miklum hluta af skatttekjum ríkisins, en það er vegna þess að verslunin innheimtir mikið af sköttum fyrir ríkisvaldið.“

Miklar breytingar framundan

Hann sagði skatta frá starfsmönnum verslunar vera um 75 milljarða, en það er svipuð upphæð og fer í samgöngumál og menntamála samanlagt. Þá sé verslunin ráðandi þáttur í tekjuöflun ríkisins, bæði í því sem hún ber og þess sem hún innheimtir. „Þessu hlutverki verslunar hefur ekki verið gefinn mikill gaumur,“ segir Ágúst.

Á næstu árum mun sjálfsafgreiðsla aukast mikið auk þess sem netverslun mun verða stærri. Hann segir að nauðsynlegt sé að mennta starfsfólk í greininni betur til að mæta þeim kröfum sem breytt landslag kalli á, en í nýlegri skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey var meðal annars sagt að til að ná fram aukinni framlegð á Íslandi þyrfti að færa um 20% af vinnuafli þjóðarinnar úr verslun og þjónustu yfir í aðrar greinar.

Krabbamein sem eykur spillingu

Þá segir Ágúst eina helstu niðurstöðu skýrslunnar vera nauðsyn þess að afnema gjaldeyrishöftin. „Með höftum er ekki hægt að byggja neitt heilbrigt atvinnulíf eða búa mönnum þau lífskjör sem menn gætu haft. Gjaldeyrishöftin vekja upp minningar um höftin sem voru hér um miðja síðustu öld og voru lengur en þau þurftu að vera og sköpuðu verri lífskjör.“

Sagði hann að með höftunum væri verið að drepa viðskiptalífið og að þau leiddu til aukinnar spillingar „Gjaldeyrishöftin eru að drepa íslenskt efnahagslíf. Þeim hefur verið líkt við krabbamein og það er réttmæt lýsing og krabbamein getur valdið dauða. Gjaldeyrishöftin endurspegla þau höft sem voru á verslun á árunum áður með spillingu og verri lífskjörum en þurfti. Við erum að stefna inn í það sama,“ segir Ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK