Gæti lækkað verð kjúklingakjöts um 40%

Landbúnaðarvörur eru 40% af því sem lendir í matarkörfunni. Margt af þessu má lækka í verði umtalsvert sé opnað fyrir aukinn innflutning á landbúnaðarvörum. Þetta segir  Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu, í þættinum Viðskipti með Sigurði Má. 

Segir hún Íslendinga sýna tvískinnung með því að vilja flytja allt út en loka á margt í innflutningi. „Okkur finnst allt í lagi að flytja allt út, flytja út kjöt, flytja út landbúnaðarvörur, en svo er bara einstefnumerki og við fáum ekkert að flytja inn,“ segir Margrét.

Hún vísar á bug sjúkdómarökum varðandi að það þurfi að takmarka innflutning. „Það eru gerðar gríðarlega ríkar kröfur til þeirra sem flytja inn kjötvörur hingað, það þarf að vera í frysti í 30 daga og menn þurfa að skila inn öllum vottorðum. Við segjum alltaf að það séu fleiri heilbrigðisvottorð sem eru í lagi en þau sem koma héðan. Við eigum að treysta því ferli sem er í gangi og vera ekki þessi molbúar sem við erum.“

Kjúklingakjöt gæti lækkað um 40%

Margrét segir að samtökin hafi tekið saman hversu mikill sparnaður gæti fengist ef innflutningur á hvítu kjöti og öðrum landbúnaðavörum væri gerður frjáls. Segir hún að þar gætu til dæmis alifuglabringur lækkað um 40%, ostar um allt að 30% og jógúrt um 25%.

Framundan eru kosningar og Margrét segir það furðulegt að allir flokkar tali bara um að koma til móts við skuldug heimili, en enginn virðist sýna því áhuga að lækka matarkostnað þessara sömu heimila. „Nú koma allir flokkar fram og segjast vilja gera allt fyrir heimilin. Það eru ekki öll heimili sem skulda, en öll heimili sem þurfa að borða. Við segjum að ef stjórnmálamenn meina eitthvað með því að gera allt fyrir íslensk heimili þá geta þeir ekki bara horft á skuldavanda heimilanna heldur verða þeir líka að horfa til vöruverðs og ekki síst matarverðs,“ segir Margrét. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK