Síminn samdi við Ericsson um 4G kerfi

Ann Emilson, Vice President CU Nordic & Baltic Operators, Linda …
Ann Emilson, Vice President CU Nordic & Baltic Operators, Linda Rex, Key Account Manager, North Atlantic Markets Robert Lagerholm, Engagement Manager, Mobile Broadband. Mogens Petersen, Project Manager. Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, Anna Björk Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Tæknisviðs Símans, Baldur Viðar Baldursson, forstöðumaður símkerfa hjá Símanum og Þór Jes Þórisson, framkvæmdastjóri tæknimála Skipta.

Síminn hefur samið við fjarskiptarisann Ericsson um uppbyggingu 4G kerfis til að efla dreifikerfið á landsvísu enn frekar. 

 „Við erum stolt af þessum samningi og teljum okkur vera að bjóða bestu lausnina á markaðnum,“ er haft eftir Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra Símans, í fréttatilkynningu. 

 Ann Emilson, framkvæmdastjóri fyrir þjónustu Ericsson við fjarskiptafyrirtæki á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum, fagnar nýja samningnum. „Með þessum samningi styrkjum við enn frekar langtímaviðskiptasamband okkar við Símann og við fögnum því að okkur skuli treyst fyrir uppsetningu næstu kynslóðar farsímanetsins á Íslandi, þannig að viðskiptavinir geti notið enn betra farsímasambands og áreiðanlegrar þjónustu,“ segir hún.

 „Samstarfið á eftir að leiða til nýrra og spennandi tækifæra fyrir atvinnulífið, samfélagið og heimilin í landinu. Sem leiðandi alþjóðlegt fyrirtæki á sviði LTE þjónustu hefur Ericsson einsett sér að aðstoða Símann við að mæta sívaxandi þörf fyrir þráðlausa tengingu á Íslandi,“ segir Sævar.

 Auk þess að setja upp 4G kerfi sem tekið verður í notkun þegar líður á árið, verður hraðinn um 3G kerfið aukinn enn frekar á næstu árum. „Það felur í sér að 3G kerfi Símans verður tvöfalt öflugra en nú og verður gagnahraðinn víða ekki síðri en í 4G,“ segir hann.

 „Við hjá Símanum byggjum 4G tæknina upp þar sem fólk er á ferðinni því viðskiptavinir Símans hafa nú þegar háhraðainternetþjónustu heima við, eins og Ljósnetið sem nær allt að 50 Mb/s hraða. Viðskiptavinirnir Símans geta því treyst því að þeir ná góðri nettengingu fyrir símtæki og spjald- og fartölvur vítt og breitt um landið.“

 Sævar segir að hraðinn á 3G nái allt að 42 Mb/s þar sem mest verður. „Ástæða þess að við eflum 3G áfram þrátt fyrir tilkomu 4G tækninnar er að enn sem komið er styðja fá símtæki og tölvur 4G tæknina. Það gerir til að mynda aðeins brot farsíma á fjarskiptakerfinu þessa stundina. Við viljum því bæta þjónustu við viðskiptavinina miðað við búnaðinn sem þeir nota, en ekki þvinga þá til þess að fjárfesta í dýrum tækjum að óþörfu til þess halda í við þróunina,“ segir Sævar.

 „Dæmið er einfalt í okkar huga. Símtækið þarf að styðja tæknina. Því öflugra símtæki því meiri hraði. Hjá Símanum tryggjum við að þeir sem eiga 4G búnað munu geta notað hann, en einnig að góð tæki í höndum viðskiptavina í dag úreldast ekki á einni nóttu þótt ný tækni bjóðist á markaði,“ segir hann, í fréttatilkynningunni.

 Ericsson er leiðandi fyrirtæki í farsímakerfum í heiminum. Um helmingur allra fjarskiptafyrirtækja nota fjarskiptakerfi frá Ericsson. Samningurinn nú er til fimm ára um uppbyggingu á fullkomnasta farsímakerfi sem völ er á í fjarskiptum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK