Hagnaðist um 10 milljarða á gengismun

Orkuveita Reykjavíkur
Orkuveita Reykjavíkur mbl.is/Hjörtur

Orkuveita Reykjavíkur bókfærði 8,7 milljarða tap á síðasta ári vegna gengismunar og verðbóta. Fyrstu þrjá mánuði þessa árs hagnaðist fyrirtækið hins vegar um 10 milljarða króna vegna hagstæðrar gengisþróunar.

Þetta kom fram í máli Ingvars Stefánssonar, fjármálastjóra Orkuveitu Reykjavíkur, á opnum ársfundi í gær. Orkuveitan er mjög skuldsett fyrirtæki, en skuldir þess námu 236 milljörðum um síðustu áramót. 78% skuldanna eru í erlendum gjaldmiðli, en þetta hlutfall var 91% árið 2009. Gengi krónunnar hefur því mikil áhrif á skuldastöðuna.

Rekstrarhagnaður Orkuveitunnar var tæplega 15 milljarðar á síðasta ári sem er mesti hagnaður í sögu fyrirtækisins. Rekstrartekjur fyrirtækisins hafa tvöfaldast frá 2006.

Ingvar vakti sérstaka athygli fundargesta á þeim mikla árangri sem náðst hefur við að draga úr rekstrarkostnaði. Á föstu verðlagi hefur tekist að draga úr rekstrarútgjöldum um tæplega tvo og hálfan milljarð króna frá árinu 2010. Á sama tíma jukust tekjur Orkuveitunnar um 7,4 milljarða króna á verðlagi ársins 2012.

Ingvar sagði mikilvægt að styrkja lausafjárstöðu OR enn frekar. Skuldir fyrirtækisins væru enn of miklar. Fjárhagsstaða fyrirtækisins væri hins vegar að styrkjast. Hann nefndi sem dæmi að skuldaþekja fyrirtækisins, vaxtaberandi skuldir og vaxtaberandi eignir á móti handbæru fé frá rekstri, hefði verið 11,9 ár í fyrra, en hlutfallið var 27,7 ár árið 2009. Þetta hlutfall væri nú komið niður fyrir það sem það var árið 2007. Ingvar sagði að markmið Orkuveitunnar væri að koma þessu hlutfalli niður í 5-6 ár líkt og væri hjá sambærilegum fyrirtækjum á Norðurlöndunum.

Ingvar Stefánsson.
Ingvar Stefánsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK