Kafbátar, flugvélar og vélfuglar í HR

Leifur Þór Leifsson, forstöðumaður rannsóknasetursins (t.h.) ásamt Árna Þorvaldssyni, nemanda …
Leifur Þór Leifsson, forstöðumaður rannsóknasetursins (t.h.) ásamt Árna Þorvaldssyni, nemanda í hátækniverkfræði. Rósa Braga

Í kjallara Háskólans í Reykjavík hefur rannsóknastofa fyrir ómönnuð farartæki aðsetur, en þar er unnið að lausnum og þróun á hinum ýmsu farartækjum sem eiga að geta komist leiðar sinnar óstuddar af mannshendinni og án þess að til komi neinnar beinnar stýringar. Í stuttu máli sagt eiga farartækin að geta hugsað fyrir sig sjálf, auk þess sem mikið er lagt upp úr því að gera alla fínhreyfingu og nákvæmni betri en til staðar er í dag í sambærilegum farartækjum. Nýjasta tæki stofunnar er vélfugl, en sjálfstýribúnaður eins og verið er að vinna að hefur aldrei verið settur á slíka vél áður.

Rannsóknarstofan, sem hefur skammstöfunina LUV (e. Laboratory for Unmanned Vehicles), var stofnuð árið 2009 og er það Leifur Þór Leifsson, lektor við skólann, sem veitir henni forstöðu. Mbl.is ræddi við Leif um rannsóknarstofuna og þá þróun sem unnið er að þar innandyra.

Kafbátar, flugvélar og vélfuglar

Verkefni stofunnar eru mörg, en meðal annars hefur verið unnið í samstarfi við Teledyne Gavia um þróun á kafbáti sem á að geta framkvæmt ýmsar flóknar aðgerðir. „Við skoðuðum meðal annars hvernig hægt er að stýra kafbátum þegar þeir fara mjög hægt, bakka og hliðra sér,“ segir Leifur, en sjálfstýribúnaður farartækjanna er mjög stór hluti í þessu samhengi og ekki einfalt að þróa þá með fínhreyfingu í huga.

Þá hafa meðlimir rannsóknarstofunnar komið að byggingu á veðurathugunarflugvél í samstarfi við Belging, en þar er létt ómönnuð flugvél látin fljúga með mæla til að geta fengið nákvæmar upplýsingar um ákveðin svæði. Leifur segir að með því að notast við flugvélar í stað loftbelgja í þessu samhengi verði kostnaðurinn mun lægri, hægt sé að endurnýta flugvélarnar og þær verði mun færanlegri.

Flugvélaverkfræði fyrir fugla

Nýjasta verkefnið og það sem mesta áherslan er lögð á í dag er þó vélfuglinn. Leifur segir að þeir séu að reyna að smíða „ómannaða flugvél sem flýgur með vængjaslætti eins og fugl“. Vænghaf fuglsins er um hálfur metri upp í heilan metra, eða sem svarar stærð dúfu upp í stærð mávs. 

„Markmiðið er að finna út hvernig eigi að hanna svona hluti út frá flugvélaverkfræðisjónarmiðið. Hefðbundin flugvélaverkfræði hentar vel fyrir vélar sem fljúga hratt og hátt, en við erum að skoða flugvélar sem fara hægt og lágt,“ segir hann um vélfuglinn, en vélfuglinn á einnig að geta gert ýmsar kúnstir sem krefjast fínhreyfingar.

Vantar hraða og nákvæmni 

Hann telur þær vörur sem eru til í dag á þessum markaði ekki vera nægjanlega góðar og meðal annars vanti hraða og nákvæmni. „Þessi fuglar sem eru til í dag eru svo hægfara og geta ekki gert neitt sjálfir,“ segir Leifur, en hann telur að enginn hafi áður tengt sjálfstýribúnað við vélfugl eins og þeir hyggjast gera. „Markmiðið okkar er að fuglinn okkar hafi mun meiri flughæfni þannig að hann geti framkvæmt hluti sjálfur,“ segir Leifur.

Fyrstir að tengja vélfugl og sjálfstýrikerfi

Fuglinn getur blakað vængjunum upp og niður, dregið þá að sér og sent út og segir Leifur að þetta sé miklu flóknari vængur en verið sé að nota í dag. Þeir hafa nú þegar keypt að utan einfaldan væng og segir Leifur að sér að vitandi hafi þeir tengt væng við sjálfstýrikerfi fyrstir manna.

Hann segir að ætlunin sé að vélfuglinn verði þannig úr garði gerður að hann geti sjálfur tekið ákvarðanir og stýrt sér alveg sjálfur. Þá eigi fuglinn að geta hagað sér eins og venjulegir fuglar og framkvæmt hreyfingar sem hingað til hafa þótt ómögulegar að vélar geri á sjálfstýringu. „Markmiðið er að hann geti sest á og flogið af stað af trjágrein eins og venjulegir fuglar,“ segir Leifur.

Rannsóknastofan var fyrst til að setja sjálfstýringu í vélfugl.
Rannsóknastofan var fyrst til að setja sjálfstýringu í vélfugl. Rósa Braga
Meðal annarra verkefna stofunnar er fjórþyrla, kafbátar og flugvélar.
Meðal annarra verkefna stofunnar er fjórþyrla, kafbátar og flugvélar. Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK